149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[15:41]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem upp í andsvar af því að ég kemst ekki í ræðu. Ég þarf að fara að sækja börnin mín en mig langaði að koma upp og þakka kærlega fyrir að fá aftur að vera á málinu. Ég myndi segja að það væri stórkostlega stórt skref, grundvallarskref í lýðræðisþróun í hinum vestrænu ríkjum, að hleypa 16 ára ungu fólki á kjörstað. Eitt sem var rætt í nefndinni og var bent á er að í lýðræðissögu mannkynsins hefur oft verið tengt saman að ef maður er skattlagður, ef ríkið tekur af manni skatt er rétt að hann hafi eitthvað með það að segja hvernig þeim skatti er varið. Þetta var eitt af grundvallarþemum í sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna á sínum tíma, ef við fáum ekki að koma að ákvarðanatöku ríkisins, fáum ekki að koma að löggjafanum í okkar fylkjum o.s.frv. er ekki rétt að þið skattleggið okkur. Var slagorðið ekki: „No taxation without representation“? Engin skattlagning án þess að við séum representuð? Ég sletti því fram. Ég held að þetta sé orðið íslenskt orð í dag, með leyfi forseta.

Mig langaði að þakka fyrir þetta og taka þá saman að þetta mál var komið í 3. umr. og búið að eiga alveg heilan dag, eina átta klukkutíma, að vísu skipt í tvo daga, í 3. umr. Það var alveg á lokametrunum. Það var einmitt búið að að breyta málinu aðeins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem ég sat og fylgdi málinu eftir með hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, sem var framsögumaður málsins, þannig að ég býst við því að málið eigi eftir að renna vel í gegn. Við erum nýlega, eins og ég segi, síðasta vor, búin að fara yfir öll atriðin, búin að samþykkja í þingsal þær breytingar sem eru komnar inn í frumvarpið. Ég held að allir þingmenn, minnir mig, það voru kannski einhverjir á gulu en nánast allir þingmenn greiddu atkvæði með þeim breytingum þannig að ég óska þingheimi til hamingju með málið og þakka aftur fyrir að fá að taka þátt.