149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þm. Þorstein Víglundsson, því að honum verður tíðrætt um samkeppni: Treystir hv. þingmaður versluninni til að vera með samkeppni? Við erum að tala um níu afurðastöðvar í landinu. Hvað eru mörg ráðandi fyrirtæki í versluninni? Eru keðjurnar ekki bara þrjár? Ég treysti þeim alls ekki til að fara með hagsmuni neytenda hér á landi.

Við erum að tala um íslenska matvöru, sauðfjárræktina, kindakjötið, sem er mjög vistvænt og við erum að tala um að það uppfylli allar kröfur varðandi gæði og líka varðandi kolefnisspor og með flutning og annað. Hvernig getur hv. þingmaður tryggt matvælaöryggi og lýðheilsu ef við sjáum á bak þessari framleiðslu?

Talið barst að samkeppni og hv. þingmaður talaði um flutningsnetið í raforku. Ég held að við séum í þeim veruleika á Íslandi að við þurfum að styrkja sumar vörur opinberlega og að þær fái kannski að njóta fákeppninnar því að ef einhver samkeppni ríkti í flutningskerfi raforku efast ég um að ég myndi hafa rafmagn t.d. vestur á fjörðum, nema þá bara með ljósavélum, því að enginn myndi treysta sér í þá samkeppni.