149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel svo ekki vera. Ég tel að við höfum nýlegt dæmi um það: Tvöföld skráning Arion banka og stórir hópar erlendra fjárfesta tóku þátt í því útboði og mörkuðu með því tímamót í sögu íslenskra fjármálafyrirtækja. Við sáum töluvert mikla nýja fjárfestingu erlendra aðila inn í bankakerfið. Ég tel að allt sem gerðist á síðasta ári sé til vitnis um að gjaldmiðillinn er engin fyrirstaða fyrir því að ríkið losi um eignarhald. Fyrir þessu eru sömuleiðis færð mjög rík rök hér í hvítbókinni. Ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður á við þegar hún segir að aðstæður hafi verið allt aðrar árið 2012. Hún stóð hér sjálf 25. september 2012 og mælti fyrir frumvarpi um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, þar sem færð voru rök fyrir því að nú væri kominn tími til að losa um alla þessa eignarhluti; hún stóð hér sjálf sem fjármálaráðherra og mælti fyrir frumvarpinu um að ríkið losaði (Forseti hringir.) um þetta allt saman nema niður í 70% í Landsbankanum. Það er afskaplega undarlegt að heyra sama þingmann koma sex árum síðar, sjö árum bráðum, og (Forseti hringir.) halda því fram að aðstæður hafi einhvern veginn breyst, að menn eigi að gæta sín og selja ekki eignarhluta ríkisins.