149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, en ákvörðun um að leggja fram heilbrigðisstefnu liggur í raun og veru fyrir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar að auki er grundvöllur heilbrigðisþjónustunnar og heilbrigðiskerfisins að fyrir liggi hvert stjórnvöld hyggist halda í heilbrigðisþjónustunni og þróun hennar. Það er svo að þegar við tölum um lífslíkur og heilsu þjóða almennt eru allir þættir samfélagsins mikilvægir og þar eru mikilvægastir þeir þættir sem lúta að lífsstíl fólksins í landinu og félagslegum og efnahagslegum þáttum þjóðarinnar. Í því samhengi gegnir heilbrigðisþjónustan minna hlutverki en margir myndu ætla. Engu að síður er góð heilbrigðisþjónusta nánast forsenda þess að við getum haft byggð og ekki síst í hinum dreifðu byggðum landsins.

Sú heilbrigðisstefna sem mælt er fyrir fjallar um heilbrigðiskerfið og heilbrigðisþjónustuna í þröngum skilningi og þær grunnstoðir sem eru nauðsynlegar til að hægt sé að byggja upp traust heilbrigðiskerfi þar sem ríkið sem greiðandi þjónustunnar geti gert nauðsynlega forgangsröðun og ákveðið mikilvægi verkefna, byggt á þörfum notenda hverju sinni og tryggt sem jafnast aðgengi þeirra óháð búsetu og efnahag. Alltaf þegar sett er saman stefna af því tagi er mikilvægt að horfa til þess sem gerist í löndunum í kringum okkur. Meiri hluti þjóða, til að mynda í Evrópu, hafa þegar sett saman og lagt fram heilbrigðisstefnu til að ljóst sé hvaða grunnur það er sem heilbrigðisþjónustan hvílir á í hverju landi. Um leið er misjafnt eftir löndum hvernig sá grunnur er og hvernig hann er skilgreindur. Sums staðar er farið mun víðar en hér er gert og líka fjallaði um lýðheilsumál, en við eigum gilda lýðheilsustefnu þannig að við förum þá leið að leggja fram stefnu sem lýtur fyrst og fremst að þjónustunni sem slíkri.

Varðandi það sem er ekki í stefnunni held ég að mikilvægt sé að við förum yfir það. Ekki er verið að fjalla um einstaka þætti þjónustunnar, þ.e. við fjöllum ekki um geðheilbrigðismál, öldrunarþjónustu, meðferð við fíknsjúkdómum, endurhæfingu, hjúkrunarheimili o.s.frv. heldur leggjum grunn sem skapar forsendur fyrir því að við getum unnið að eflingu allra þeirra innviða á kerfisbundinn hátt, óháð rekstrarformi og samkvæmt fyrir fram ákveðinni eða skýrri hugmynd um forgangsröðun. Það má segja á einfaldan og skýran hátt að þetta sé grunnurinn að byggingunni sem við erum að byggja. Þetta er viðleitni til þess að byrja á grunni hússins en ekki á þakinu. Það er afar mikilvægt þegar við tökum ákvarðanir í heilbrigðismálum að við eltumst ekki frá degi til dags við fyrirsagnir dagsins og séum að slökkva elda, heldur séum með einhverja heildarhugsun undir.

Í þingsályktunartillögunni er orðuð framtíðarsýn fyrir heilbrigðisþjónustuna í tveimur liðum. Í fyrsta lagi að íslensk heilbrigðisþjónusta verði á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar. Í öðru lagi að árangur innan heilbrigðisþjónustunnar verði metinn með því að mæla gæði hennar, öryggi, hversu aðgengileg hún er og hvað hún kostar. Þetta eru meginmarkmið fyrir þjónustuna alla, að hún sé á heimsmælikvarða, standist það sem best gerist í heiminum og að við séum með mælikvarða til þess að mæla árangur okkar.

Heilbrigðisstefnunni er skipt í kafla sem eru ekki endilega settir fram í mikilvægisröð heldur frekar, í einhverjum skilningi, eðlilegri röð.

Í fyrsta lagi fjöllum við um forystu til árangurs, þ.e. hvernig heilbrigðiskerfinu er stjórnað. Þar er afar mikilvægt að við séum alveg klár á því hver ber ábyrgð á hverjum hluta þjónustunnar. Maður verður þess áskynja þegar maður starfar í heilbrigðisstofnun eða í heilbrigðisráðuneytinu að stundum eru grá svæði þarna á milli sem mikilvægt er að skýra. Það þarf að vera góð samvinna milli heilbrigðis- og félagsþjónustu, skýr mörk á milli þess sem sveitarfélögin gera og ríkið gerir o.s.frv. Í stefnunni eins og hún er lögð fram í tillögu til þingsályktunar er gert ráð fyrir að á árinu 2030 verðum við búin að ná tilteknum markmiðum undir þeim kafla sem má sjá í tillögunni.

Í öðrum hlutanum er rætt um rétta þjónustu á réttum stað. Kannski má þar einfaldlega vísa til umfjöllunarefnis nánast hvers einasta dags í fjölmiðlum, þ.e. þegar fólk fær ekki þjónustu á réttum stað, fær ekki þjónustu við hæfi, það er jafnvel þannig að þeir sem ættu að vera á hjúkrunarheimili fá þjónustu á bráðadeild og þeir sem ættu að fara á heilsugæslustöð fara á bráðamóttöku.

Það samspil að þjónustan sé veitt á réttum stað og réttum tíma snýst líka um að við skilgreinum fyrsta stigs þjónustu, verkefni heilsugæslunnar, annars stigs þjónustu, þ.e. sérfræðiþjónusta utan háskólasjúkrahússins, og þriðja stigs þjónustu, háskólasjúkrahús og Sjúkrahúsið á Akureyri eftir atvikum. Þarna erum við að tala um að hlutverk hvers og eins sé skilgreint og þannig tryggt að sjúklingarnir fái þjónustu á réttu stigi þjónustunnar.

Listuð eru upp tíu mismunandi markmið sem hv. þingmenn geta séð í tillögunni.

Í þriðja lagi er kafli sem heitir Fólkið í forgrunni. Þar er rætt um mönnun heilbrigðisþjónustunnar. Þar er heilmargt undir og okkur er kannski efst í huga þessa dagana mönnunarvandi á höfuðborgarsvæðinu að því er varðar hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og úti um land að því er varðar læknamönnun og sérstaklega þá í heilsugæsluna. Hvernig tryggjum við nægilega mönnun í heilbrigðiskerfinu og hvernig tryggjum við að við séum með á einum stað og með sýnilegum hætti nákvæmlega hver mönnunin er í dag? Það er ekki þannig að einfalt sé að kalla þær upplýsingar fram hver mönnunin sé núna, hverjir séu að vinna í kerfinu okkar og hversu mikið. Þarna erum við líka að tala um að samstarf verði milli stofnana og teymisvinna, þverfagleg nálgun, heildræn nálgun, sú nálgun sem er sem betur fer að vaxa ásmegin í heilbrigðisþjónustunni allri, að heilbrigðisstarfsmenn séu ekki stakir að vinna vinnu sína heldur sé unnið miklu meira í teymum þar sem öll þekking nýtist til að tryggja sem besta þjónustu fyrir íbúa okkar.

Í fjórða lagi er það kaflinn sem heitir Virkir notendur. Þá erum við að tala um að tryggja að landsmenn hafi góðan aðgang að upplýsingum og hafi þekkingu til að taka upplýstar ákvarðanir um val á heilbrigðisþjónustu, þ.e. þeir sjái rafræna notendagátt, þeir noti og nýti sér Heilsuveru eða einhverja slíka gátt, þeir geti hvenær sem er séð stöðu sína í greiðsluþátttökukerfinu, hversu mikið viðkomandi er búinn að borga og hversu mikið hann á eftir áður en hann kem upp í þak, sama hvort það er heilbrigðisþjónusta eða lyf eða annað, og að gerðar verði reglulegar þjónustukannanir til að tryggja ákveðið aðhald í þjónustunni og almenningur viti hvers hann má vænta varðandi þróun hennar.

Virðulegi forseti. Ég verð að fara nokkuð hratt yfir sögu.

Í fimmta lagi er rætt um skilvirk þjónustukaup, sem er sá kafli sem að sumu leyti tekur mest á þeim viðfangsefnum sem eru krefjandi í heilbrigðisþjónustu dagsins í dag, þ.e. hvernig ríkið kaupi heilbrigðisþjónustu og hvernig sé greitt fyrir hana. Hér er skemmst að minnast úttektar Ríkisendurskoðunar á kaupum á heilbrigðisþjónustu á vegum Sjúkratrygginga Íslands þar sem Ríkisendurskoðun bendir á að þetta þurfi að gera miklu skýrara, liggja þurfi fyrir á grundvelli stefnu ráðherra hvaða heilbrigðisþjónustu beri að kaupa, í hvaða magni, hverjar kröfurnar eigi að vera varðandi gæði, árangur o.fl. og það þurfi líka að ríma saman við hugmyndir um greiðsluþátttöku sjúklinga og þess háttar.

Þarna erum við að tala um þarfagreiningu og að það sé í raun sambærilegt kerfi óháð því hver veitir þjónustuna, sem á bæði við um þá sem veita þjónustuna á grundvelli sérstakra samninga við Sjúkratryggingar Íslands í dag og þá sem veita heilbrigðisþjónustu og eru hluti af opinbera kerfinu.

Í sjötta lagi er það kaflinn Gæði í fyrirrúmi. Til að tryggja gæði og öryggi þurfum við að birta niðurstöðu á reglulegan hátt um árangur heilbrigðiskerfisins, einstakra þátta, og vera með samanburðarhæf gögn sem við getum borið saman við löndin í kringum okkur, sem við getum borið saman innan landsvæða og borið saman á milli einstakra tímabila. Við eigum að gera skýrar kröfur í samningum við þjónustuveitendur um gæðavísa og hvaða árangri skuli náð. Við erum í raun og veru þegar búin að skrifa undir, ég skrifaði undir með landlækni á dögunum, áform um að koma inn skýru gæðakerfi í alla heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Nú er innleiðingarferlið að hefjast þar sem öllum ber, allt frá Landspítala og yfir í einyrkja í heilbrigðisþjónustu, að sýna fram á ákveðna gæðavísa og matsþætti til að sýna fram á árangur starfsemi sinnar.

Í sjöunda lagi ræðum við um framtíðina. Sá kafli heitir Hugsað til framtíðar. Þá erum við að tala um hvernig við tryggjum að íslensk heilbrigðisþjónusta dragist ekki aftur úr með nokkru móti, að við menntum starfsfólkið okkar, gerum það vel fyrir fram með grunnmenntuninni en gerum það líka með sí- og endurmenntun þannig að fólkið okkar standist samanburð við það sem best gerist í heiminum. Við ætlumst líka til þess að það sé vettvangur fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að sinna rannsóknum og vísindum og að gagnagrunnar og lífsýnasöfn verði opin og aðgengileg vísindamönnum sem hafa leyfi til vísindarannsókna. Við höfum samninga við önnur ríki um að framhaldsmenntun lækna og framhaldsmenntun heilbrigðisstétta uppfylli ströngustu alþjóðlegar kröfur og við stöndum í öflugu samstarfi við Norðurlandaþjóðir um mat á nýrri tækni og nýjum aðferðum. Þeir þættir verða alveg örugglega sífellt meira krefjandi eftir því sem árin líða. Oft er það þannig að tæknin er komin töluvert lengra á undan okkur en við sjálf, stundum eru siðferðileg álitamál sem við höfum ekki klárað að ræða og framfarir hafa jafnvel orðið á sviði tækni og vísinda.

Virðulegur forseti. Það er með stökustu ólíkindum að ég sé búin að fara yfir sjö kafla og eigi eftir örfáar mínútur til að ljúka máli mínu. Mig langar að tala um framkvæmd stefnunnar. Einfaldasti hlutur í heimi er að ákveða slíka stefnu en hún þarf að vera til einhvers, hún þarf að vera grunnurinn að raunverulegum framkvæmdum. Við gerum ráð fyrir því að gerðar verði áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn og að þær aðgerðir verði samhliða fjármálaáætlun á hverjum tíma. Þær verði uppfærðar árlega meðan heilbrigðisstefnan er í gildi og heilbrigðisráðherra leggi fram aðgerðaáætlanir heilbrigðisstefnunnar til umræðu á Alþingi ár hvert, ekki til afgreiðslu velferðarnefndar heldur bara til þess að gera þinginu grein fyrir því hverjar aðgerðirnar eru í samræmi við hvern kafla stefnunnar, hvað standi til, hvaða skref eigi að taka í hverjum kafla fyrir sig. Þetta er fyrir utan allt það sem var aðeins drepið á í byrjun og lýtur að einstökum þáttum heilbrigðisþjónustunnar og verður partur af áætluninni, sem sagt það sem lýtur að þjónustu við aldraða, áherslur í endurhæfingu, þjónustu við ákveðna sjúklingahópa o.s.frv.

Við erum í raun að tryggja grunninn, sem er langþráð aðgerð. Mig langar að geta þess alveg í lokin að við þurfum líka að gæta að því hversu raunhæft er að tryggja jafnt aðgengi óháð búsetu. Við þurfum að nýta nútímatækni og öfluga sjúkraflutninga til þess og þurfum síðan að tryggja að áfram verði reglubundið samráð um þær aðgerðir sem hér eru boðaðar, þ.e. við forstjóra opinberra heilbrigðisstofnana, sveitarfélög, notendur, félög fagaðila og aðra.

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir að tillögunni verði vísað til velferðarnefndar að lokinni fyrri umræðu.