149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni jákvæð orð og spurninguna líka. Varðandi mönnun í hjúkrun þá hef ég safnað saman — við gerðum það í ráðuneyti velferðarmála og nú heilbrigðisráðuneytinu — nánast öllum mögulegum hugmyndum sem hafa komið upp í viðræðum við stéttarfélögin, í skýrslum, úttektum o.s.frv.; safnað saman öllum þeim tillögum sem kynnu að vera til góðs í því að bæta mönnun í hjúkrun. Þarna var ekkert gert í því að flokka eða meta þessar tillögur, hverjar væru góðar, hverjar síðri o.s.frv., heldur voru þær allar lagðar að jöfnu.

Ég lagði fram minnisblað í sérstakri ráðherranefnd um samræmingu mála þar sem við vorum, ég og forsætisráðherra og fjármálaráðherra, en þar var fjallað um það með hvaða hætti hægt væri að ýta á aðgerðir hjá stofnununum, þ.e. öllum þessum opinberu stofnunum, til þess að bæta mönnun í hjúkrun, án þess að trufla samtalið um kjör og vinnutíma sem á sér stað við samninganefnd ríkisins. Niðurstaðan varð sú að það gerðist — og er gaman að segja frá því á þessum degi — í gær að ég sendi bréf til allra heilbrigðisstofnana á landinu þar sem hvatt er til þess að farið sé í úttekt á þessum aðgerðum, sem eru núna átta eða níu, að hver stofnun fyrir sig geri mat á því hver sé mögulegur kostnaður og tímalína við það að koma þessum aðgerðum til framkvæmda til að freista þess að koma til móts við þennan mönnunarvanda. Ég lagði áherslu á að mjög stuttur tímafrestur yrði gefinn, þannig að við bíðum fram til 15. eða 20. febrúar, ég man ekki alveg hvor dagsetningin það var, með að fá einhvers konar mat frá heilbrigðisstofnunum að því er varðar þessar tilteknu aðgerðir. (Forseti hringir.) Það er þetta sem ég er að gera til skamms tíma.