149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

Evrópuráðsþingið 2018.

528. mál
[15:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessa góðu hvatningu og get vel hugsað mér að skrifa blaðagrein eða gera myndband eða annað til að vekja athygli á þeirri alvarlegu stöðu sem þessi mikilvægi vörður mannréttinda er í akkúrat núna vegna þess niðurskurðar sem vofir yfir.

Ég vil líka bæta því við og benda á að ef við ætlum okkur að standa vörð um Mannréttindadómstól Evrópu, sem er alls ekkert gefið að verði niðurstaðan í þessum niðurskurði, og halda hlífiskildi yfir Mannréttindadómstólnum, verður að skera niður annars staðar. Og eins og ég benti á í ræðu minni áðan er vandi að velja úr hvað það ætti að vera. Er það Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð? Sú nefnd hefur oft komið með gagnrýni á íslensk stjórnvöld án þess að við því hafi verið brugðist, eins og t.d. gagnvart lögræðislögum okkar sem eru og verða í umræðunni núna fljótlega. Ættum við að skera niður þar? Ekki vil ég sjá það.

Mér þykir mjög mikilvægt að ef Ísland tekur sig alvarlega sem lýðræðisríki, sem ríki sem stendur vörð um mannréttindi, réttarríki og lýðræði, stöndum við við bakið á Evrópuráðinu og tökum frumkvæði að því að tryggja að ekki þurfi að skera niður í helstu stofnunum sem þar starfa og sinna mikilvægu hlutverki fyrir mannréttindavernd, bæði á Íslandi og í öllum heiminum.

Ég tek undir með hv. þingmanni, það væri ekki æskilegt að Rússland drægi sig út úr þessu samstarfi vegna þess að þá missa ekki einungis allir þeir sem í Rússlandi búa aðgang sinn að Mannréttindadómstólnum, heldur hættir þá líka samtalið við Rússland á þessum mikilvæga vettvangi um hvernig við getum komist að friðsamlegum lausnum. (Forseti hringir.) Það er nokkuð sem ég hef verulegar áhyggjur af, að samtalið hætti, vegna þess að þá stefnir venjulega í óefni.