149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að þetta verða viðbótargjöld á alla þá sem fara þarna um, hvort sem það eru ferðamenn eða landsmenn. Hægt er að velta upp hinni hlið peningsins. Hægt er að horfa á þetta sem kostnað fyrir viðkomandi en síðan er hægt að horfa á hina hlið peningsins sem felur í sér greiðari umferð, minni eldsneytiseyðslu, umhverfisvænni umferð og öruggari vegi.

Þegar það er allt saman lagt á vogarskálarnar efast ég ekki um hver ávinningurinn verður og hvar hann mun liggja fyrir íslenskt þjóðarbú, fyrir íslensk heimili og ríkissjóð.

Það er mjög mikilvægt, eins og hv. þingmaður nefnir, að útfæra það með góðu samstarfi við ferðaþjónustuaðila, til að mynda hvernig innheimta á bílaleigubílum verður. Það gekk mjög vel í Hvalfjarðargöngum þar sem samstarf var milli Spalar og bílaleigufyrirtækjanna.

Þær skoðanir ferðaþjónustunnar sem vitnað er í kem ég kannski inn á í seinna svari.