149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:02]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er auðvitað mjög áhugavert vegna þess að mitt sjónarmið er að hér hafi verið lagt af stað með það í upphafi umræðu um samgönguáætlun að hugsa út fyrir boxið vegna þess að það væri svo mikil eftirspurn eftir því að byggja hraðar upp, þrátt fyrir að við værum með fjármagn sem aldrei fyrr hefur verið sett svo mikið í samgönguáætlun. Það var nákvæmlega umræðan sem var í þinginu.

Núna er verið að afgreiða samgönguáætlun með heimild til framkvæmdarvaldsins til að útfæra þessar hugmyndir. Á þingmálaskrá minni í haust voru hugmyndir um að í mars kæmi frumvarp um þetta mál. Nú erum við að ræða um að það muni skýrast í vor með fjármálaáætlun þannig að umræðan er fullkomlega eðlileg. Hún er hvorki skyndileg né ótímabær, hún er á réttum stað. Svo höldum við áfram að ræða þetta í mars og vonandi við framlagningu samgönguáætlunar næsta haust þegar við sjáum hvernig þetta spilar saman.

Eitt af því sem hefur verið rætt, af því að hv. þingmaður hefur talað um svæðisbundna gjaldtöku, eru hugmyndir sem meiri hlutinn í borginni, sem hv. þingmaður og hennar flokkur á aðild að, er með sérstakar óskir um að fá að (Forseti hringir.) taka gjöld á höfuðborgarsvæðinu til að byggja upp almenningssamgöngur og stofnbrautir og koma að rekstri eins og gert er í mörgum borgum. Er hv. þingmaður ekki sammála þeirri leið eða er það eitthvað sem heitir svæðisbundin skattlagning í augum þingmannsins?