149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:15]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veiti því athygli í lokakaflanum í áliti minni hluta Viðreisnar og Samfylkingarinnar sem er fjórar síður, að í kaflanum eru átta línur sem snúa að flugsamgöngum í landinu. En það er ekkert minnst á flugöryggi eða umsagnir sem komu, alvarlegar umsagnir um flugvallakerfið, uppbyggingu þess til að tryggja flugöryggi í landinu. Það væri ágætt að fá fram eitthvað um það hvers vegna það vantar inn í álitið.

Kannski er spurning líka hvort hv. þingmaður sé sammála mér að flugið á Íslandi, innanlandsflugið, sé hluti af almenningssamgöngum í landinu. Og aftur, hvort það séu endilega líkindi til þess að íbúar landsbyggðarinnar, segjum á Akureyri, þar sem tekur sjö klukkustundir og 15 mínútur að fara með strætó á milli og kannski 12–14 klukkustundir að fara með almenningssamgöngum, strætó, til Egilsstaða frá Reykjavík. Hvar liggja þau mörk að við getum talað um almenningssamgöngur með strætó, þannig að við getum einhvern tímann reiknað með að það verði einhverjar almenningssamgöngur?