149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:50]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni seinna andsvar. Ég er ekki lögfræðimenntuð og ætla því ekki að túlka það hvaða stöðu nefndarálit hefur að öðru leyti en því að í því eru ýmis tilmæli frá nefndum. Í nefndarálitum eru tilmæli frá nefndum til stjórnsýslunnar. Það er svo vissulega ráðherra að vinna úr því sem hér kemur fram ásamt ýmsu því sem hlýtur að koma fram í vinnu þess starfshóps sem vinnur að útfærslunni. Það kæmi mér ekkert á óvart þó að allt sem fram kemur í frumvarpinu, sem lagt verður fyrir síðar á þessu þingi, verði ekki í 100% samræmi við það sem stendur í þessu nefndaráliti vegna þess að útfærsla yfir í það sem er framkvæmanlegt þarf að ráðast nær vettvangi en í þingnefnd.