149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:13]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér um þingsályktunartillögu um samgönguáætlun, þessa stóru áætlun til hagsbóta fyrir samgöngukerfi okkar, enda hefur hún verið til umfjöllunar hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í allt haust. Gestir hafa komið fyrir nefndina hvaðanæva af landinu og því miður hafa langflestir lýst lélegu ástandi vega í sínu nærumhverfi. Lái þeim hver sem vill. Fjármögnun samgöngubóta hefur ekki verið fullnægjandi síðustu ár og hvorki í takt við væntingar né uppsafnaða þörf. Hér er gerð góð bragarbót á ýmsu og góðum samgöngubótum komið til framkvæmda og því er hægt að fagna. Þó svo að aldrei sé hægt að gleðja alla, líkt og í lífinu sjálfu, er hægt að fagna því að rúmlega 192 milljörðum alls er varið í samgöngur næstu fimm árin. Það hljóta því allir að sjá að hér ræðum við eina umfangsmestu áætlun sem sett er fram af ríkisstjórn hverju sinni.

Að því sögðu, út frá stærð og umfangi samgönguáætlunar, ætti að sjálfsögðu að koma meðfram henni úttekt á þeirri góðu og ágætu áætlun út frá markmiðum okkar í loftslagsmálum. Það er tilefni til að fagna þeim áherslum sem fram koma í áætluninni á almenningssamgöngur, hjólreiðastíga og framkvæmdir við borgarlínu en þegar kemur að fjármögnun þessara atriða hefði ég að sjálfsögðu viljað sjá mun meiri fjármuni lagða í þau. 300 millj. kr. framlag ríkisins á þessu ári og 500 millj. kr. framlag á því næsta í borgarlínu, með skilyrði um sama framlag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, mætti kalla of lítið á tímum þegar við höfum undirgengist markmið Parísarsamkomulagsins. Ég hefði svo gjarnan viljað sjá metnaðarfyllri fjármögnun borgarlínu af hálfu ríkisins. En vonum að þetta verði eitt af atriðunum sem verða endurskoðuð í haust í samgönguáætlun eins og boðað er að fari fram, út frá markmiðum okkar í loftslagsmálum, enda er aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hugsuð sem helsta tæki stjórnvalda til að tryggja að Ísland nái markmiðum Parísarsamkomulagsins til 2030.

Í því samhengi má minna á, líkt og gert er í umsögn Reykjavíkurborgar við samgönguáætlunina, að í aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum sem kynnt var í september sl., segir m.a.:

„Þá er efling á almenningssamgöngum og efling hjólreiða og göngu sem samgöngumáta mikilvægur þáttur í því að draga úr losun. Huga þarf að samgöngumiðuðu skipulagi sem gerir aðra ferðamáta en einstaklingsbíla að raunhæfum valkostum. Samtímis er mikilvægt að breyta ferðavenjum, gera þær fjölbreyttari með öflugum almenningssamgöngum, deilihagkerfislausnum og styrkingu innviða fyrir gangandi og hjólandi.“

Í aðgerðaáætluninni er vísað til mótunar samgönguáætlunar með aðgerðum á borð við eflingu innviða fyrir rafhjól og reiðhjól og eflingu almenningssamgangna og deilihagkerfis í samgöngum. Við verðum líka að taka til okkar umsögn Reykjavíkurborgar þar sem farið er hörðum orðum um fyrirliggjandi tillögu að samgönguáætlun til ársins 2033, hún sýni ekki að ríkið ætli að taka aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum alvarlega.

Alls er gert ráð fyrir um 4,6 milljörðum kr. í uppbyggingu göngu- og hjólastíga á landinu öllu á næstu 15 árum. Fjármunir til eflingar hjólreiða og göngu verða samkvæmt tillögunni um 300 millj. kr. á ári fyrir landið í heild. Því til samanburðar hefur Reykjavíkurborg lagt 450 millj. kr. árlega í hjólastíga síðustu árin. Það er rétt sem meiri hlutinn bendir á í sínu nefndaráliti að hjólreiðar hafa aukist mjög á örfáum árum og samkvæmt könnun á ferðavenjum haustið 2017 þá jókst hlutdeild hjólreiða úr 4% í 6% frá könnun 2015. Það eru skýrar vísbendingar um að stígaframkvæmdir hafi skilað verulegum árangri í því að stuðla að vexti hjólreiða.

Mig langar líka að geta þess sem Reykjavíkurborg minnir á í sinni umsögn sem er áætlun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um loftgæði sem ráðuneytið setti fram í fyrra. Þar kemur fram að ein helsta uppspretta loftmengunar í þéttbýli séu samgöngur. Í áætlun ráðuneytisins eru sett fram nokkur markmið sem tengjast loftgæðum og væri hægt að tengja tvö þeirra beint við samgönguáætlun og þar með draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum bílaumferðar á heilsu fólks, sem er frábært, en líkt og segir í umsögn Reykjavíkurborgar enn og aftur þá virðist það hafa misfarist við gerð tillögu að samgönguáætlun að tilgreina hvaða aðgerðir samgönguyfirvöld ætla að fara í til að ná fram markmiðum áætlunar ríkisins um loftgæði. Þessa þætti þarf að taka alvarlega, herra forseti, því að hér er ekki einungis um að ræða alvarleg umhverfisáhrif heldur líka neikvæð heilsufarsleg áhrif samgangna sem við verðum að sporna við.

Ég tek að sjálfsögðu undir það sem sagt er í meirihlutaáliti nefndarinnar að það er brýnt að almenningssamgöngur séu fyrir hendi í öllum landshlutum, enda eru þær mikilvægar fyrir atvinnu- og námsskilyrði innan landshlutanna og þurfa að vera raunhæfur valkostur fyrir íbúa og ferðamenn. Þar verði sérstaklega að horfa til tíðni ferða, upphæðar fargjalda og leiðakerfis. Í þessu efni verður einnig að horfa til aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, sem ég hef áður minnst á, þar sem mikil áhersla er lögð á eflingu almenningssamgangna. Um mikilvægi og eflingu almenningssamgangna verðum við að sameinast öll sem eitt enda er ekki annað í boði. Það er allt of mikið í húfi þegar kemur að því að stuðla að róttækum og öflugum kerfisbreytingum til að sporna við loftslagsbreytingum. Í því skyni eru breytingar á ferðavenjum okkar lífsnauðsynlegar.

Ég vil líka vekja athygli á áherslum meiri hlutans í öðru sem tengist bráðnauðsynlegum orkuskiptum sem ræðufólki hefur verið tíðrætt um hér í kvöld. Það er rafvæðing hafna sem meiri hlutinn telur að þurfi að flýta eins og kostur er með tilliti til umhverfismála.

Nú þegar ég hef rætt áherslur og umhverfissjónarmið er kominn tími til að orða það sem ég set fyrirvara um í nefndarálitinu, virðulegi forseti, en það er umfang gjörbyltingar í fjármögnun almennra samgönguframkvæmda með veggjöldum.

Flest ræðufólk í þessari umræðu hefur rætt þessa fjármögnunarhugmynd enda ekki að undra, hér er um glænýja leið að ræða til að fjármagna almennar samgönguframkvæmdir. Það verður að segjast eins og er að það kom verulega á óvart að þegar aðeins nokkrir dagar voru eftir af haustþingi komu inn í nefndina nýjar og óræddar tillögur frá ráðuneyti samgöngumála um veggjöld eða sérstakan vegaskatt til að fjármagna almennar framkvæmdir í samgönguáætlun. Þessar tillögur um vegaskattinn eru algjör umbylting á fjármögnunarhugmyndum almennra samgönguframkvæmda og hvergi að finna í sáttmála ríkisstjórnarinnar.

Þó að hér hafi nefndarmenn í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þráttað um það hversu vel eða illa nefndin hafi rætt um vegaskatta þá er það staðreynd að lítið hefur verið rætt um þá skattlagningu í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins þó svo að kynningar hafi átt sér stað nú í janúar um niðurstöður starfshóps hæstv. samgönguráðherra um þessa fjármögnunarleið. Mér hefur fundist satt að segja ansi bratt af hálfu nefndarmanna að fullyrða og staðhæfa í fjölmiðlum að full sátt sé um þessar fjármögnunarleiðir þegar við erum í raun og veru að ræða þær hugmyndir fyrst núna, en þingleg meðferð tillagna um vegaskatt er eftir. Það sem er mikilvægara er að öll útfærsla vegaskatta, sem skiptir höfuðmáli í ákvarðanatökunni, er eftir.

Það er ljóst í mínum huga að hugmyndir starfshóps samgönguráðherra snúast um að höfuðborgarbúar greiði að uppistöðu til vegaskatt í landinu því að flestar hugmyndir um innheimtu hans eru í kringum höfuðborgarsvæðið. Það er kannski skiljanlegt því mesta umferð á landinu er á höfuðborgarsvæðinu en íbúar höfuðborgarsvæðisins verða að fá mun skýrari mynd en nú er lögð fram í samgönguáætlun um hvað þetta þýði nákvæmlega. Vegaskattur er svokölluð fallandi skattlagning en skemmst er að minnast þess að landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ályktaði gegn veggjöldum enda í takt við stefnu hreyfingarinnar í skattamálum sem hefur beitt sér fyrir réttlátari og fjölþrepaskiptri skattlagningu og gegn flatri og fallandi skattlagningu því hún leggst hlutfallslega þyngra á þá tekjulægri en minna á þá efnameiri.

Þá er hægt að spyrja: Á ekki uppbygging grunnvegakerfisins að vera fjármögnuð og viðhaldið með sameiginlegum sjóðum frekar en sérstökum vegaskatti? Það skiptir máli að þær tölur sem um er að ræða séu nákvæmar og útfærðar á þann hátt að almenningur geti myndað sér skoðun á málinu með upplýstum hætti og að við öll getum lagt raunverulegt mat á það hvernig veggjöld eða vegaskattar leggjast misjafnt á fólk. Hér finnst mér satt að segja, herra forseti, að byrjað sé á öfugum enda og út frá öfugum forsendum þegar við ákveðum að setja vegaskatt eða veggjöld án þess að vera með endanlega útfærslu tilbúna. Það er eitthvað sem við þurfum að ræða almennilega þegar hæstv. samgönguráðherra leggur fram sitt boðaða frumvarp um veggjöld seinna í vor og jafnvel ræða þetta mun ítarlegar þegar ný samgönguáætlun verður lögð fram fyrr en að þremur árum liðnum, eins og boðað hefur verið.

Ef við ætlum að sveigja af þeirri fjármögnunarleið samgöngukerfisins sem hefur verið viðhöfð um áratugaskeið og ákveða að vegakerfið okkar og umbætur á því verði fjármagnaðar með sérstakri skattheimtu veggjalda, til að mynda ef markmiðið er að draga úr umferð í þágu umhverfisins, þá þarf að útbúa skýra heildarstefnu um almenningssamgöngur og skýrari grænni samgöngustefnu en nú er. Vegaskattar geta ekki bara runnið í að fjármagna fleiri jarðgöng, flýta samgönguframkvæmdum og auka umferðarflæði sem býður upp á hraðari og meiri umferð einkabíla. Ef vegaskattur á að þjóna grænum umhverfisvænum markmiðum á borð við skilyrta umferðartöf til að draga úr bílaumferð þá þarf að vera skýrt að þeir fjármunir sem munu safnast við þá skattlagningu renni í eflingu almenningssamgangna, flýti framkvæmdum við borgarlínu og áframhaldandi vinnu við hjólastíga og efli til muna möguleika gangandi fólks til að komast á milli staða með öruggum hætti. Þetta mun vonandi breytast í meðförum þingsins.

Til þess að tryggja framgang á nýrri fjármögnunaraðferð samgönguframkvæmda sem eiga að þjóna grænum markmiðum þarf líka að vinna að því með mun meiri sátt, samvinnu og með samtölum því það er ljóst að afstaða umsagnaraðila við samgönguáætlun, þegar kemur að veggjöldum og vegaskatti, er afar blendin og jafnvel algerlega ómótuð líkt og fram kemur í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem er nú einn af mikilvægustu umsagnaraðilunum. Í umsögn sambandsins kemur fram, með leyfi forseta:

„Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ekki mótað stefnu um veggjöld til að fjármagna uppbyggingu samgönguinnviða. […] Forsenda slíkrar gjaldtöku í öðrum löndum er þó jafnan að vegfarendur hafi val um aðra leið, án gjaldtöku, og er eðlilegt að við það verði einnig miðað hér á landi.“

Óskar Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því að haft verði samráð við fulltrúa sambandsins um þróun slíkra hugmynda. Ég tel það afar brýnt og í raun bráðnauðsynlegt að hafa í þessu máli, umbyltingu í fjármögnun almennra samgönguframkvæmda, mikið og gott samráð við sem flesta og hvet ég hæstv. samgönguráðherra til þess.

Annað sem ég vil nefna, sem ég set fyrirvara við í nefndaráliti, er sú fyrirætlan að niðurgreiða flugfargjöld landsbyggðarfólks til Reykjavíkur, sem er ein af niðurstöðum starfshóps samgönguráðherra um innanlandsflug og flugvelli. Sú fyrirætlan er að mínu mati afskaplega brött aðgerð en áætlað er að niðurgreiða allt að átta leggi fram og til baka frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. Að því sögðu geri ég mér fyllilega grein fyrir því að kveðið er á um það í sáttmála ríkisstjórnar að unnið verði að því, með leyfi forseta, „að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna“. Þessu geri ég mér fulla grein fyrir. Sú niðurgreiðsla sem nú er fyrirhuguð og boðuð bætist við núverandi niðurgreiðslu á innanlandsflugi og hljóðar upp á allt að 1 milljarð á ári til viðbótar við þá niðurgreiðslu. Það er á tímum þegar við höfum undirgengist Parísarsamkomulagið um að draga úr útblæstri til að sporna við hlýnun loftslags og við vitum að flug er einn af orsakaþáttum loftmengunar. Ef þessar niðurgreiðslur á flugi eru hugsaðar sem styrkur til íbúa landsbyggðarinnar væri þá ekki nær að nýta þennan tæpan milljarð á ári í langþráðar umbætur í vegakerfinu á landsbyggðinni eða jafnvel til að bæta innviðaþjónustu á landsbyggðinni? Hvað um að efla almenningssamgöngur enn frekar í þágu umhverfisins?

Af því að í þessu samhengi hefur iðulega verið vísað í svokallaða skoska leið þá má minna á það að í Skotlandi hefur skoski græningjaflokkurinn verið afar gagnrýninn á afsláttinn. Í skýrslu um stöðu loftslagsaðgerða og loftslagsmála í Skotlandi frá árinu 2017, í kaflanum um samgöngur, er talað um hversu mikið útblástur frá flugi hefur aukist síðastliðin ár, sérstaklega auðvitað í millilandaflugi en þó er talað um innanlandsflugið í Skotlandi. Þar kemur einnig fram að frá því að skattafslátturinn var tekinn upp hafi útblástur aukist og ef hann verður aukinn, eins og sumir þingmenn í Skotlandi vilja með því að fjölga svæðum á borð við allra afskekktustu svæði Skotlands, muni útblástur frá innanlandsflugi aukast um 5%. Í Skotlandi hefur líka verið haldið uppi afar harðri gagnrýni af umhverfisverndarsamtökum á skattafsláttinn sem flugfélögin njóta þar í landi. Ekki nóg með það heldur er staðan líka þannig að Skotar hafa lent í vandræðum vegna þess að þeir hafa ekki enn fengið útfært hvort og þá hvernig þetta stangist á við ríkisaðstoð við flugfélög. Svo að ég ætla nú bara að varpa þeirri djörfu hugmynd fram hér hvort við værum þá kannski til í að niðurgreiða flug fyrir höfuðborgarbúa til að fljúga út á land til að njóta einstakrar náttúru sem landsbyggðin hefur upp á að bjóða. Það er kannski eitthvað sem við gætum rætt í þessu samhengi.

Herra forseti. Þar með hef ég tæpt á þeim fyrirvörum sem ég hef varðandi samgönguáætlun og árétta að lokum að við verðum að taka upp skýrari stefnu um hagkvæmari og vistvænni samgöngur, gefa í fjárfestingar í samgönguinnviðum fyrir almenningssamgöngur eins og svo margir þingmenn hafa tæpt á hér í kvöld í þessari umræðu. Þá er verið að tala um sem fjölbreyttastan máta, hvort sem það er gangandi eða hjólandi umferð eða almenningssamgöngur. Samgönguáætlun okkar allra á að taka til fjáröflunar og útgjalda allra greina samgangna, okkur öllum til heilla.