149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum spurningarnar. Ég veit ekki alveg hvernig hefði verið best að nálgast þetta, en ég held að alla vega hefði mátt ræða við Reykjavíkurborg um það hvernig málin standa þar, vegna þess að ágætlega er komið inn á flugvallarmálið í sáttmála meirihlutaflokkanna í Reykjavík. Þar segir að rekstraröryggi flugvallarins verði tryggt, sem rímar dálítið við það sem stendur í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. En bætt er við: meðan unnið er að undirbúningi nýs flugvallar í nágrenni borgarinnar.

Það hefði mátt taka stöðuna á þeirri vinnu og setja inn í nefndarálitið. Sú vinna, sá undirbúningur, skiptir, eins og þingmaðurinn nefnir, öllu máli til þess að við getum haldið áfram, til þess að við getum farið að vinna markvisst að málum. Miðað við alla tímaramma þyrftum við væntanlega að gera það á fyrsta eða öðru tímabili þessarar samgönguáætlunar, vinna markvisst að því að finna nýtt flugvallarstæði, eða finna niðurstöðu í það hvert flugumferð á að fara ef hún fer úr Vatnsmýrinni.

Hv. þingmaður spurði hvort ég vissi hvað annað væri í gangi innan Stjórnarráðsins í þessum málum, en ég verð að viðurkenna að ég hef ekki spurt eftir því, ég veit það ekki. Ég vona að þar séu menn með á nótunum, vegna þess að þetta er svakalegt hagsmunamál og snýst um, eins og þingmaðurinn nefndi, svo ótalmargt.