149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[12:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Sú samgönguáætlun sem við ræðum hér í dag gengur í stuttu máli út á þá drauma manna að innleiða veggjöld. Henni var frá upphafi forgangsraðað með þeim hætti að framkvæmdir á suðvesturhorninu fengjust ekki ræddar undir neinum formerkjum öðrum en að þeim framkvæmdum fylgdi þá aukin gjaldtaka á þá umferð sem yrði innleidd með veggjöldum. Mér finnst dálítið kómískt í sjálfu sér að einmitt þeir sem telja sig til hægri manna og treysta ekki vinstri mönnum til einhverra tiltekinna verka séu hinir sömu og eru í fararbroddi um þær skattahækkanir sem eiga að fylgja veggjöldunum. Það er þá hægri stefna þessara hægri manna. Þeir sömu eru reyndar líka á móti viðskiptafrelsi, tala fyrir háum tollum og vöruvernd í landbúnaði og svo mætti áfram telja. Þetta er engin hægri stefna, þetta er verndarstefna, þetta er skattahækkunarstefna. Útgangspunktur meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar í þessari vinnu er að innleiða hér veggjöld án þess að hafa til fullnustu kannað hvort aðrar leiðir væru færar til að fjármagna þær framkvæmdir sem nauðsynlegt er að ráðast í, án þess að gefa okkur einu sinni nægjanlegan tíma til að ræða eða útfæra með hvaða hætti leggja ætti á veggjöld ef á annað borð ætti að leggja þau á og með hvaða hætti við viljum standa að framtíðarfjármögnun á vegakerfinu.

Því er gjarnan fleygt fram að endurskoðun á framtíðarfjármögnun vegakerfisins sé nauðsynleg vegna minnkandi hlutdeildar jarðefnaeldsneytis í samgöngum, sem betur fer, og minnkandi tekjum ríkissjóðs þar af, sem er auðvitað alveg rétt. Ef vilji er til er meira en nægur tími til að vanda þar til verka og taka okkur þann tíma sem þyrfti og eðlilegt væri að Alþingi myndi taka sér í að ræða jafn miklar breytingar á gjaldtöku á umferð. En, nei, hægri menn dreymir um skattahækkanir og auðvitað er áhugavert í því samhengi að sjá Vinstri græn skipa sér þar í lið sem ákafan stuðningsmann þessarar hugmyndar.

Það er mjög áhugavert þegar horft er á óskalista meiri hlutans varðandi framkvæmdir sem hægt væri að fella undir veggjöld að þær eru allar á suðvesturhorninu. Þegar kemur að gjaldtöku snerta framkvæmdirnar landsmenn ekki með sama hætti. Gjaldtakan myndi lenda af langmestum þunga á íbúum sveitarfélaga á Reykjanesinu, Suðurlandi og sunnanverðu Vesturlandi. Þeir íbúar eru um 50.000 talsins sem ferðast sennilega hvað mest til og frá höfuðborgarsvæðinu og munu þá þurfa að taka á sig sérstakar gjaldskrárhækkanir eða kostnaðarauka vegna þeirra ferðalaga. Við höfum hlustað á talsmenn meiri hlutans reyna að sannfæra okkur um að í þessu felist svo ofboðslega mikill sparnaður fyrir þessa sömu íbúa. Vegalengdin verður alveg sú sama. Það er aldrei verið að tala um neinar styttingar sem þessir íbúar hafa ávinning af í færri eknum kílómetrum með tilheyrandi kostnaðarlækkun. Það er vissulega verið að sinna mjög brýnum öryggismálum með þeim vegabótum sem þar er talað um, en beinn ávinningur þeirra sem mest munu nota þessa vegi er ekkert í líkingu við það sem var t.d. fyrir íbúa á Vesturlandi þegar Hvalfjarðargöngin komu til sögunnar og þá gríðarlegu styttingu sem þau höfðu í för með sér. Það er verið að grauta öllu saman í hugmyndafræði. Við ættum að einbeita okkur að því einfaldlega að ræða hér hvernig við raunverulega getum lagt fram fullfjármagnaða og forgangsraðaða samgönguáætlun sem mætir öllum þeim brýnustu framkvæmdum í vegakerfinu okkar sem við þurfum að ráðast í. Meiri hlutinn, ríkisstjórnin, sagði sig frá því verkefni, heyktist á því að leggjast í þá vinnu að finna út hvernig við ætlum að fjármagna þær mikilvægu framkvæmdir og skilar nær auðu þegar kemur að einni þeirri mikilvægustu sem er uppbygging almenningssamgangna og borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar ég horfi á t.d. fjármögnun og fjárveitingar til mikilvægra opinberra stofnana í þessum sömu sveitarfélögum, eins og þegar horft er á Heilbrigðisstofnun Suðurlands eða Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sem fá til sín mun minna fjármagn á hvern íbúa en sambærilegar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land, velti ég oft fyrir mér hvort sömu skilaboðin verði færð fram þar af hálfu þessarar ríkisstjórnar, að eina leiðin fyrir þessi sveitarfélög til að fá aukið fjármagn til þessara mikilvægu stofnana sé að notendagjöldin á Heilbrigðisstofnun Suðurlands eða Heilbrigðisstofnun Suðurnesja verði hækkuð sérstaklega. Nei, ég ætla rétt að vona að þessum hópi myndi aldrei detta slík vitleysa í hug, en það er það sem þau hafa gert í samgöngumálum. Þessi hópur á að greiða sérstaklega fyrir að fá nauðsynlegar samgöngubætur sem þessir 50.000 íbúar landsins munu vafalítið nota hvað mest. Stór hluti þess hóps sem hefur verið að flytja í þessi sveitarfélög hefur verið að leita að lækkun framfærslukostnaðar og hagstæðara húsnæðisverði en fær þennan glaðning frá meiri hlutanum í umhverfis- og samgöngunefnd og ríkisstjórninni í kaupbæti.

Við heyrum stóryrtar yfirlýsingar meiri hlutans þar sem menn hreykja sér af því að hér sé í fyrsta skipti lögð fram fullfjármögnuð samgönguáætlun. Þó það nú væri, þetta er í fyrsta skipti sem lögð er fram samgönguáætlun þar sem í gildi er fjármálaáætlun á sama tíma. Það er kannski ekki til of mikils mælst að meiri hlutinn fari eftir eigin fjármálaáætlun. Það er kannski ekki mikið að hreykja sér af þótt þeim hafi tekist að fylgja fjármálaáætluninni sinni.

Vandinn er hins vegar að hún er ekki fullfjármögnuð af því að allar dýru framkvæmdirnar eru undanskildar. Það er sagt: Ja, við ætlum að finna leið til að skattleggja ykkur sérstaklega fyrir þeim. Þar af leiðandi er þessari samgönguáætlun augljóslega ekki forgangsraðað með réttum hætti. Enn og aftur segi ég: Stærstu og brýnustu verkefnin eru einfaldlega skilin eftir. Þetta eru frekar innstæðulaus stóryrði sem meiri hluti nefndarinnar hreykir sér af.

Staðreyndin í þessu máli er einföld: Það þarf að ráðast í verulegar samgöngubætur. Það þarf jafnvel meira til en það sem meiri hlutinn leggur upp með af því að það gleymist að taka nauðsynlega innviðauppbyggingu innan höfuðborgarsvæðisins með í reikninginn og uppbyggingu borgarlínu. Samtals erum við sennilega að tala um 100–110 milljarða í mikilvægum framkvæmdum sem eru teknar út fyrir sviga í samgönguáætlun sem hér er lögð fram. Það er allur metnaður þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að nauðsynlegum samgöngubótum þegar hægur leikur hefði verið að taka utan um þetta mál í þessum sal og finna um leið aðrar leiðir til að fjármagna þær mikilvægu samgöngubætur. Við í Viðreisn höfum bent á að ríkið heldur á a.m.k. 300 milljarða eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Það er ekkert vestrænt ríki sem á jafn stóra hlutdeild í fjármálakerfinu sínu og við. Það er hægur vandi að losa aðeins um þó að ríkið væri áfram kjölfestuaðili í báðum viðskiptabönkunum sem það á hlut í, það gæti losað t.d. um 100 milljarða á næstu fimm árum í hægum, skipulegum skrefum og umbreytt því fjármagni í fjárfestingu í innviðum. Það væri vel farið með opinbert fé. En, nei, um það er ekki pólitísk samstaða í þessari ríkisstjórn. Það verða engar breytingar. Þrátt fyrir að Sjálfstæðismenn leyfi sér að tala ítrekað um mikilvægi þess að losa um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum er augljóst af yfirlýsingum forsætisráðherra að það verður lítið sem ekkert gert á þessu kjörtímabili í þeim efnum. Það er synd því að það væri miklu skynsamlegra að taka fjármagn sem ríkið er með bundið í þessum fyrirtækjum, og getur hæglega losað um, og nota til nauðsynlegrar innviðauppbyggingar í stað þess að fara sömu leið og þessi ríkisstjórn virðist ætla að gera svo oft, auka bara útgjöld ríkissjóðsins, belgja út báknið og hækka skatta til að fjármagna það allt saman.

Það er hinn einfaldi sannleikur sem er alltaf að koma betur og betur í ljós. Þrátt fyrir yfirlýsingar um hið gagnstæða, að hér væri búið að finna upp undratæki þar sem hægt væri að auka útgjöld ríkissjóðs um fjórðung á fjórum árum og lækka skatta um leið til að mæta málamiðlun milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks, kemur í ljós að sú málamiðlun er ekki fær, enda hefði þar með verið búið að finna upp mjög sérkennilegt töfratæki. Núna horfum við í augun á fyrstu skattahækkunum þessarar ríkisstjórnar en alveg örugglega ekki þeim síðustu.