149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[13:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Í gærkvöldi var hringt í mig og mér sagt að það væri vilji manna að ljúka umræðunni með ákveðnum hætti. Ekki var haldinn neinn þingflokksformannafundur til að ákveða það heldur var það gert hér á göngunum og ég upplýstur um að þetta væri það sem verða ætti. Ég talaði að sjálfsögðu strax við forseta og spurði hvað gengi á, hvers vegna ekki hefðu allir verið hafðir með í ráðum og einhver skýring kom á því.

Síðan frétti ég í morgun að hinir óháðir þingmenn sem eru utan þingflokka, eða annar þeirra í það minnsta, fengju að tala eingöngu í fimm mínútur. Spurði ég þá forseta hverju þetta sætti því að ég tel óeðlilegt að takmarka ræðutíma þingmanns sem á samkvæmt þingsköpum rétt á ákveðnum hlutum. Var ég þá upplýstur um að þetta væri í fyrsta lagi hefð og að öðru lagi sé einhvers staðar í þingsköpum að finna heimild til að gera það. Hvort sem er rétt er þetta alveg arfagalið þannig að ég legg til að forseti geri hlé og þessum hv. þingmanni eða þingmönnum verði gefið færi á að tala eins og þingsköp leyfa.