149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

samstarf við utanríkismálanefnd um öryggismál.

[15:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka forsætisráðherra fyrir svörin og einlægni. Ég treysti því sem forsætisráðherra hefur sagt, að hún muni, þrátt fyrir að hafa ekki greitt þjóðaröryggisstefnunni atkvæði sitt, fylgja því eftir eins og segir í stjórnarsáttmála. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkar öryggis- og varnarhagsmuni.

Ég bíð eftir sem áður eftir því, af því að það skiptir máli að leiðsögn sé skýr af hálfu forsætisráðherra, hvort hún muni beita sér fyrir því að reynt verði með þinginu öllu og fyrst og fremst utanríkismálanefnd að ná samstöðu um okkar helstu samningsmarkmið. Við fáum t.d. ekki nægilegar upplýsingar um okkar helstu samningsmarkmið vegna Brexit. Þar er utanríkismálanefnd ekki tengd inn í þá vinnu sem þar fer fram. Mér finnst það ekki rétt og ekki frambærilegt að gera það með þeim hætti.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Styður hún það að utanríkismálanefnd og þingið komi að því að móta samstöðu um helstu samningsmarkmið? Ég vil benda á eitt gott dæmi. Það er þegar hin umdeilda umsókn varðandi ESB fór af stað. Skoðanir voru skiptar hjá flokkum en það var eitt sem var sameiginlegt, (Forseti hringir.) utanríkismálanefnd þingsins var virkjuð í að ná sameiginlegri niðurstöðu um helstu samningsmarkmið og (Forseti hringir.) hagsmuni Íslendinga. Ég tel að það hafi verið góð vinnubrögð. Ég tel æskilegt, til að auka samstöðu í þinginu varðandi (Forseti hringir.) ríka hagsmuni í öryggis- og varnarmálum, að við náum sem breiðastri samstöðu um þau mál.