149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

valkvæður viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

367. mál
[17:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að lýsa yfir nokkrum vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra í þessu máli og finnst í rauninni algerlega ótækt að ræða um þingsályktunartillögur sem einhverja óskalista sem settir eru fram af þinginu og eiginlega komið fram við sem einhvers konar annars flokks þingmál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það tel ég bara alls ekki fært og gildir þá einu hvort við ræðum mál almennt eða um þetta sérstaka mál sem um ræðir, sem er þingsályktunartillaga sem var samþykkt um að fullgilda viðauka um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Ég veit eiginlega ekki hvert við erum komin sem löggjafarþing ef þingsályktunartillögur skipta engu máli og ef það er bara hægt að pikka úr og velja hvaða þingsályktunartillögum eigi að framfylgja og hvaða ekki og held ég þá hreinlega að við þurfum að skoða málin í miklu stærra samhengi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)