149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

aðgangur fatlaðs fólks að réttarkerfinu.

369. mál
[17:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Sem betur fer hefur margt þróast á jákvæðan hátt. Umhverfið er að verða betra en langt er í land, en nokkuð er síðan réttindagæslumennirnir komu til skjalanna. Ég hvet hæstv. ráðherra að taka skrefið lengra. Það er fínt að skipa vinnuhópa, vera með ákveðna aðgerðaáætlun, en það þarf að fylgja því eftir. Það þarf m.a. að gera það á grunni fjármagns. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hafi, eftir að skýrslan var kynnt í júní 2018, gert ráð fyrir að setja fjármagn í þessa þætti, þ.e. að tryggja réttindi fatlaðs fólks og aðgang þess að réttarkerfinu.

Ég vil einnig geta þess að það skiptir gríðarlega miklu máli að fræðslan varðandi réttarvörslukerfið, hvort sem er hjá lögreglumönnum eða starfsfólki fangelsa eða öðrum, verði markviss. Ég vil einnig hvetja hæstv. ráðherra til að gera úttekt á stöðu fatlaðs fólks í fangelsum. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli.

Ég hef heyrt að það séu einstaklingar í fangelsum á grunni þroskahömlunar, en þeir eiga ekki heima þar. Ég hvet hæstv. ráðherra til að fara ítarlega yfir það svið fyrir utan almennt aðgengi fatlaðra brotamanna að almennri þjónustu.

Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessu. Ég vona að við fáum tækifæri til að styðja við þau mál, hvort sem það eru dómtúlkar í einkamálum, því máli sem hefur verið nefnt hér, eða í öðrum málum. En ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að láta þessi mál til sín taka.