149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

viðbragðsgeta almannavarna og lögreglu í dreifðum byggðum.

472. mál
[17:55]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna, sem er mjög þörf og snertir nágrennið þar sem ég bý mjög mikið, þ.e. Sveitarfélagið Hornafjörð. Öræfasveitin er tikkandi í þessu samhengi og hefur verið komið inn á það hérna.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður talaði um varðandi þá einstaklinga sem sinna björgunarstarfi og öðru slíku, en þetta eru fáir einstaklingar. Ég vil velta því upp við ráðherra hvort hægt sé í rauninni að styðja betur við þann hóp með þjálfun, fræðslu og öðru slíku eða jafnvel bara með tækjabúnaði. Þetta er dýrt og er íþyngjandi.

Búið er að koma inn á GSM-sambandið, útvarpssendingar og annað slíkt sem hefur verið mjög í umræðunni í svolítinn tíma, en hlutirnir gerast hægt. En ég vil líka þakka fyrir það sem hefur verið vel gert, bætt hefur verið við lögreglumönnum þar. Síðustu árin hefur verið viðsnúningur í þessum málum, búið að gefa þessu meiri gaum og vinnan af hendi lögreglustjórans á Suðurlandi hefur verið mjög til fyrirmyndar.