149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

viðbragðsgeta almannavarna og lögreglu í dreifðum byggðum.

472. mál
[17:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Já, það var réttilega bent á það að í hringferð minni um landið komst ég að raun um, sem ég svo sem vissi, að ekki væri símasamband alls staðar, eða útvarpssamband. Það verður að teljast með ólíkindum. Maður áttar sig ekki á því. Þegar maður horfir á landslagið virðist ekki vera neitt í landslaginu sem ætti að hindra það. En þannig er það nú samt. Það þarf að ráða bót á því og ég hef fulla trú á að verið sé að gera það jafnt og þétt.

En því má heldur ekki gleyma að fjöldi ferðamanna sækir einmitt í staði þar sem slíkt samband er ekki og vill koma sér í tengsl við náttúruna án þess að hafa símasamband og hefur alls ekki í hyggju að hlusta á útvarpið á göngu sinni um landið.

Það verða alltaf einhverjir staðir sem verða ekki í fjarskiptasambandi. En þá skiptir miklu máli að menn þekki vel til aðstæðna og séu upplýstir um það, a.m.k. ferðamenn, að þeir séu að ferðast um slíkar óbyggðir og að ekki sé hægt að ganga út frá því að hægt sé að senda þeim skilaboð vegna t.d. náttúruvár. Þarna gegnir Ferðamálastofa og ferðamálayfirvöld einhverju lykilhlutverki, að hvetja menn í ferðaþjónustu til að upplýsa alla sína ferðamenn um sérhverja náttúruvá.

Þetta er nú það sem ég vildi segja. Ég þakka fyrir umræðurnar um þetta og heyri ábendingar hv. þingmanns og brýningu um að fjölga viðbragðsaðilum. Við gerum það auðvitað ef menn meta það þannig að það sé til bóta. En eins og ég nefndi líka áðan er mjög mikilvægt að geta byggt á reynslu og byggt upp einhverja reynslu, á ekki of mörgum stöðum í einu. Það er því til ýmissa sjónarmiða að líta í þessu.