149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

26. mál
[15:01]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd kærlega fyrir vinnu við frumvarpið og það nefndarálit sem liggur hér fyrir. Það er virkilega gaman að sjá að bæði umsagnir og meðferð nefndarinnar er allt mjög jákvætt og styður þessar breytingar. Einnig er gaman að flytja málið með öllum flokkum. Þó að einn flutningsmann vanti á frumvarpið sjálft, frá Viðreisn, þá studdu það allir, og það voru aðeins mistök við útbýtingu.

En málið er mikilvægt að mörgu leyti. Það gæti verið aðeins flókið að skilja af hverju þessar breytingar eru nauðsynlegar. Þær eru vissulega að mörgu leyti örlítið tæknilegar, en lögin frá 2011 voru góð og mjög mikilvæg breyting fyrir meðferð beiðna um nálgunarbann og brottvísun af heimili. En síðan verður að taka mið af reynslu laganna og framkvæmdinni og reyna að gera bót á til þess að öll framkvæmdin verði eins og stefnt var að í upphafi. Stærsta breytingin, mögulega, verður að meðferð mála er varða nálgunarbann og hins vegar brottvísun af heimili verður ekki alveg eins.

Af hverju er það mikilvægt? Jú, það er mikilvægt af því að við getum ekki flokkað þessi úrræði sem hin sömu eða jafn þvingandi. Það að beita nálgunarbanni á einstakling sem brotið hefur verið á eða beittur ofbeldi, eða röskun verður á friði, hefur mun minni áhrif en að vísa manneskju af heimili sínu. Að fá ekki að nálgast manneskju sem þú býrð ekki með, er einhvers staðar annars staðar í þessu litla samfélagi okkar, er ekki jafn mikil þvingun og að mega ekki búa á heimili sínu. Þannig að þessi breyting, að taka þessa meðferð þessara tveggja úrræða örlítið í sundur, hefur vonandi þau áhrif að litið er á nálgunarbann meira sem tryggingarúrræði en brottvísun af heimili, sem það þvingunarúrræði vissulega er. Með því vonast ég að réttarstaða brotaþola í tengslum við nálgunarbann verði styrkt og að það verði ekki jafn þungt í vöfum að óska eftir nálgunarbanni og fá það samþykkt.

Mörg nálgunarbönn í dag eru samþykkt af sakborningi. Því þurfa þau mál með þessum breytingum ekki lengur að fá samþykki eða fara fyrir dóm ef þau eru samþykkt af sakborningi. Kannski mætti halda að það væru færri mál en fleiri sem samþykkt eru af sakborningi en svo er ekki. Ef þetta frumvarp verður að lögum verður látið á það reyna hvort það breytist eitthvað þar sem hitt úrræðið verður talsvert auðveldara og fljótlegra án úrskurðar dómara.

Síðan eru aðrar breytingar sem eru einnig til þess fallnar að reyna að létta á málsmeðferðinni, gera hana auðveldari og einnig skýrari. Kveðið er á um í lögunum um vægari úrræði, en ekkert um það hver þau eru eða hvernig þau eiga að vera framkvæmd. Oft er þá vísað til þess í dómaframkvæmd að vægari úrræðum skuli beita fyrst án þess að það sé tiltekið hvaða, hvernig eða nokkurn veginn hvort þau muni virka.

Ég held því, bara með því að setja um það fyrirmæli um hver vægari úrræðin væru, að hægt væri að hafa það samræmt hjá lögreglu, því að það er ansi mismunandi í dag milli lögregluembætta, að það sé þá búið að tikka í ákveðin box, búið að reyna vægara úrræðið og með auðveldari hætti væri hægt að sýna fram á að þau hafi ekki virkað.

Ég vona að með þessum almennu úrræðum sem fjallað var um sérstaklega í nefndinni, og ég tek undir það sem stendur í greinargerðinni, að það þurfi auðvitað og verði að meta hvert mál út frá hvaða úrræðum er beitt hverju sinni, en ekki að þau sömu vægari úrræði geti gilt fyrir hvaða mál sem er, enda eru málin afar ólík oft og tíðum og sérstaklega þegar við horfum á allar þær nýju áskoranir sem við sjáum vegna tækninnar og þær nýju áskoranir sem sjá má í þessum málum líka, út af árás, ofbeldi og röskun, í gegnum tæknina.

Ég á von á því að með því að ríkissaksóknari gefi út almenn fyrirmæli um vægari úrræði, að skýrt sé hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi og hvernig staðið skuli að framkvæmd þeirra. Við meðferð málsins og við undirbúning minn á því ræddi ég við nokkur lögregluembætti til að átta mig á mismunandi úrræðum og hvernig lögregluembættin beittu þessum vægari úrræðum.

Þessar breytingar, sem verða vonandi samþykktar, verða til þess að létta aðeins á meðferðinni, enda ekki vanþörf á. En ég held að það verði kannski að skoða í kjölfarið hvort refsingarnar við þessum brotum virki raunverulega. Það er svo í dómaframkvæmd að það eru örfáir þúsundkallar sem fólk þarf að greiða í sekt fyrir brot á hverju nálgunarbanni. Svo virðist vera að ekki séu mikil varnaðaráhrif í þeim refsingum sem við erum með gagnvart því að brjóta nálgunarbann. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að skoða það í samræmi við önnur ákvæði hegningarlaganna og kannski ef við lítum til umferðarreglnanna, hvað menn geta fengið háar sektir fyrir að tala í símann, en afskaplega lágar sektir fyrir að brjóta nálgunarbann, kannski 20 sinnum. Ásamt því held ég að nauðsynlegt sé að skoða löggjöf um umsáturseinelti og hvort við þurfum ekki slíkt ákvæði í hegningarlög á Íslandi.

Að því sögðu held ég og vona að þessar lagabreytingar, nái þær fram að ganga, verði til þess að fyrirbyggja og vernda þann sem brotið er á og fyrirbyggja frekara ofbeldi með því að bæta meðferð beiðna um nálgunarbann og þakka ég hv. allsherjar- og menntamálanefnd aftur fyrir vel unnin störf.