149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

26. mál
[15:08]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Erindi mitt í pontu er fyrst og fremst að þakka hv. flutningsmanni fyrir frumvarpið, sem ég styð heils hugar. Ég lít á það sem eitt af þeim mörgu skrefum sem við þurfum að stíga til að sporna við ofbeldi af ýmsu tagi. Það má segja að hér sé heimilisofbeldi fyrst og fremst undir og oftar en ekki er það kynbundið. Við erum mjög að reyna að herða okkur í sókninni til að koma í veg fyrir slíkt ofbeldi og geta tekið á því með viðunandi úrræðum.

Erindi mitt er fyrst og fremst að fagna þessu máli og ég er alveg sannfærður um að það mun fljúga hér í gegnum þingið. Ég tek undir orð hv. flutningsmanns um refsingarnar, að skoða þurfi vandlega hvort hægt sé að fylgja þessu nógu vel eftir. Ég vildi fyrst og fremst koma hér upp til að leggja áherslu á að þetta er gott mál sem er mikilvægt að við samþykkjum. Ég ætlast ekkert sérstaklega til þess að hv. þingmaður bregðist við þar sem engin spurning er fólgin í orðum mínum.