149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[16:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna. Ég vil fyrst taka fram að ég skil mætavel að hv. þingmenn hafi áhyggjur af mannréttindamálum á Filippseyjum og í öðrum löndum þar sem mannréttindamál eru í ólestri. Út af umræðunni, ég fylgdist með umræðunni í dag, vil ég vekja athygli á því að það hefur aldrei áður gerst að íslenskur ráðherra hafi ávarpað mannréttindaráðið fyrr en núverandi ráðherra tók við, það hefur aldrei áður gerst. Sömuleiðis hefur það svo sannarlega aldrei áður gerst að við fengjum sæti í mannréttindaráðinu. Það var samstaða í þeim ríkjahópi sem við erum í um að við færum þar inn. Ég vil trúa því að það hafi verið út af framgöngu okkar þegar kemur að mannréttindamálum. Hvað sem öðru líður finnst mér hæpið að tala um það — og ég er ekkert að segja að hv. þingmenn sem hér hafa tekið til máls hafi talað með þeim hætti. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, fór sérstaklega yfir það og þakkaði fyrir þann framgang. Það er langur vegur frá því að við beitum okkur ekki í þágu mannréttinda og látum rödd okkar ekki heyrast í þágu mannréttinda. Það er langur vegur frá því. Þvert á móti held ég að óhætt sé að fullyrða að ástæðan fyrir því að samstaða náðist innan okkar ríkjahóps um að við færum þarna inn sé af því hvernig við höfum beitt okkur hvað þetta varðar, m.a. gagnvart Filippseyjum.

Nú er það svo að fulltrúi mannréttindavaktarinnar — á ensku, virðulegi forseti, Human Rights Watch — tók það sérstaklega upp að það hefði haft jákvæð áhrif, hvað varðar mannréttindi á Filippseyjum, hvernig Ísland beitti sér í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Það voru þeirra orð. Svo sannarlega hef ég fengið gagnrýni frá ríkisstjórn Filippseyja, eins og ríkisstjórn Sádi-Arabíu, svo að einhver dæmi séu tekin, um það hvernig við höfum beitt okkur þar. Ég tel að það sé gott þegar við fáum slíka gagnrýni.

Á vettvangi EFTA höfum við m.a. beitt okkur fyrir því að kynjajafnrétti sé tekið inn í myndina þegar kemur að fríverslunarsamningum. Við erum ekki alveg komin á þann stað sem við mundum vilja sjá þar, en við stýrum ekki og stjórnum ekki EFTA ein. En við höfum algerlega staðið vaktina þegar kemur að þessum málaflokki. Við höfum algerlega staðið vaktina. Það getur enginn haldið öðru fram. Ef við ætlum að fara þá leið, eins og sumir hafa sagt hér, að gera ekki fríverslunarsamninga þegar okkur ofbýður framganga einstakra ríkja í mannréttindamálum er það grundvallarbreyting frá því sem við höfum gert um áratugaskeið.

Ég vil vekja athygli á því að á þeim tíma þegar við gerðum fríverslunarsamning við Kína kom fram, í samhljóða áliti hv. utanríkismálanefndar sem þá var, að til að knýja fram framfarir á sviði mannréttinda og vinnumála væri heilladrýgra að eiga í samskiptum við ríki í stað þess að einangra sig í samskiptum við þau og útiloka. Ég geri ráð fyrir því að sömu viðbrögð hafi orðið og sama nálgun þegar menn gerðu fríverslunarsamning við Sádi-Arabíu og fleiri ríki við Persaflóa í maí 2012 og í Kólumbíu í maí 2014, svo að einhver dæmi séu tekin.

Ætla menn að breyta þessu í grundvallaratriðum, sem hefur verið stefna okkar, stefna íslenskra stjórnvalda, sama hvernig ríkisstjórnirnar hafa verið samsettar? Samningar við Kína og Sádi-Arabíu voru gerðir í tíð vinstri stjórnar, sem var kölluð „tær vinstri stjórn“ á þeim tíma. Ég get ekki séð annað en að þetta sé nákvæmlega sama nálgun, af því að sumir þingmenn vilja ganga í Evrópusambandið, og Evrópusambandið hefur þegar kemur að fríverslunarsamningum.

Mér finnst skynsamlegra að við ræðum það, eins og við gerum í hv. utanríkismálanefnd á morgun, hvernig við getum beitt okkar rödd, t.d. í mannréttindaráðinu. Við ætlum að fara sérstaklega yfir það á morgun. Ef marka má erlenda aðila sem láta sig þessi mál varða virðist skipta máli að við ræðum hvernig við getum nýtt það með sem bestum hætti til að láta gott af okkur leiða. Og svo sannarlega eigum við að halda þeim sjónarmiðum á lofti sem við höfum gert þegar kemur að fríverslunarsamningum og þeim alþjóðlegu samtökum sem við erum í. En ef við ætlum að breyta til og hafa það þannig að við gerum ekki slíka samninga ef ríki eða ríkjabandalög uppfylla ekki þær forsendur sem við gefum okkur, eða þau gildi sem við aðhyllumst þegar kemur að mannréttindamálum, lýðræði, réttarríki og öðru slíku, erum við að tala um mjög mikla breytingu, sem ég mundi ekki telja að hefði góð áhrif, m.a. á mannréttindamál í heiminum. Ef við færum þá leið dugar ekki fyrir okkur að segja A, við þurfum þá að segja B og C líka. Það verður að segjast eins og er að þegar maður fer t.d. yfir fríverslunarsamninga EFTA, sem að mörgu leyti eru svipaðir fríverslunarsamningum ESB, er því miður í mörg horn að líta þegar kemur að mannréttindamálum í þeim ríkjum sem við eigum fríverslunarsamninga við.

Ég held að fyrir land eins og Ísland sé lykilatriði að við reynum hvað við getum til að vera samkvæm sjálfum okkur í utanríkismálum. Þá hljótum við að líta til þessara samninga líka, ekki bara þegar verið er að uppfæra þá heldur hlýtur það líka að eiga við þessi ríki sem við erum í samskiptum við núna og erum með fríverslun við núna.