149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:23]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er einmitt heila málið. Fyrir skemmstu var mælt fyrir frumvarpi um skipulagsmál á því sem kallað er Alþingisreiturinn. Flutningsmenn eru tveir, hv. alþingismenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jón Gunnarsson. Þar er gert ráð fyrir að það verði sérstök stjórn yfir þessum skipulagsreit. Reyndar er það ekki þannig í frumvarpinu að Alþingi hafi nein úrslitaráð í þessum efnum heldur er í þessari fimm manna stjórn gert ráð fyrir því að Alþingi tilnefni tvo fulltrúa, borgin tvo og síðan einn án tilnefningar, eftir því sem ég best veit. Þessari tillögu er náttúrlega ætlað að koma einhverri festu á skipulagsmálin í kringum þinghúsið. Það er full ástæða til. Það er erfitt að ímynda sér nokkurt land sem við viljum bera okkur saman við þar sem löggjafarsamkundunni væri sýnd önnur eins framkoma og felst í því að vera með þær framkvæmdir sem við sjáum hérna út um gluggann og með því raski og ónæði og truflun sem því fylgir.

Ég leyfi mér að líta þannig á að með þessum tillöguflutningi, annars vegar þeirri tillögu sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni um skipulagsmál á Alþingisreitnum og síðan þessari sem ætlað er að verja Víkurgarð sérstaklega og um leið friðhelgi Alþingis, sé leitast við að sýna fram á það að á Alþingi sé viðspyrna, raunhæf markviss viðspyrna gagnvart þessum áformum sem einkennast af skorti á menningarlegum metnaði og að því er virðist algerum skorti á sögulegri vitund.