149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:41]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U):

Herra forseti. Ég kem hér upp í þessu máli þar sem verið er að flytja tillögu til þingsályktunar um að ríkið eignist Landssímahúsið eða taki eignarnámi þann hluta lóðarinnar sem er yfir hinum gamla austurhluta Víkurkirkjugarðs. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það að þarna undir var kirkjugarður. Þegar hinum gamla Víkurkirkjugarði var skipt 1883 í þessa hluta, vestur- og austurhluta, fór austurhlutinn undir garð apótekarans og smám saman virðist það hafa gleymst hjá skipulagsyfirvöldum, á einhverjum tíma, að þar undir var kirkjugarður líka — ekki bara undir því sem við köllum Fógetagarð í dag heldur líka þar sem til skamms tíma voru bílastæði.

Enda hefur það komið í ljós. Síðast núna 2016 komu þarna upp 20 heillegar kistur. Þannig að ég kem hingað upp til að árétta margt af því sem ég sagði áðan, t.d. það hvaða rökum ég styð þetta mál. Það er í fyrsta lagi friður Alþingis, friðhelgi Alþingis, í öðru lagi friðhelgi grafreita, í þriðja lagi er það umferðaröryggið, þar sem mjög þröngt er búið um þetta húsnæði, þetta fyrirhugaða hótel og loks varðar það ásýnd Austurvallar sem útivistarsvæðis í miðborg Reykjavíkur.

Ég hef talið það vera órjúfanlegan hluta af sáttmála kynslóðanna að verja jarðneskar leifar forfeðranna. Mér finnst það vera aðalmálið varðandi þessa tillögu, að sýna forfeðrum okkar tilhlýðilega virðingu með því að vera ekki að reisa byggingar yfir fornum grafreitum. Þarna undir var grafreitur ekki fyrir svo löngu. Síðustu grafirnar eru teknar þarna á síðasta áratug 19. aldar.

Ég fer fram á það að Alþingi bregðist við eins og brugðist var við í Vestmannaeyjum eftir Vestmannaeyjagosið, þar sem kirkjugarðurinn var hreinsaður 1973. Með hjálp gesta. Það var gert strax. Höfum það sem forgangsverkefni að hreinsa kirkjugarðinn. Ég fer fram á það að við sýnum grafreitum forfeðra okkar álíka virðingu og íbúar í Skaftártungu sem hafa byggt upp varnir, bakkavörn í Eldvatni, til að áin í flóðum sínum rjúfi ekki þennan gamla kirkjugarð sem var í Ásakirkju. Okkur ber skylda til að standa vörð um grafarhelgi forfeðra okkar og vona ég því að þetta mál fái greiða leið í gegnum þingið.