149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

57. mál
[18:43]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Flutningsmenn með mér á tillögunni eru hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Ólafur Þór Gunnarsson. Tillögutextinn sjálfur er stuttur og einfaldur. Hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

Ég ætla að gera grein fyrir málinu og rökstyðja það af hverju Ísland eigi að gerast aðili að samningnum. Fyrst er kannski rétt að taka fram að samhljóða tillaga var lögð fram á bæði 147. og 148. þingi en greinargerðin hefur tekið lítils háttar breytingum frá þeim tíma.

Þannig er mál með vexti að 7. júlí árið 2017 samþykktu 122 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samning um bann við kjarnorkuvopnum. Það er þannig með samninga af þessu tagi að þeir taka gildi þegar 50 ríki hafa undirritað þá og lögfest. Vonir standa til að þessi samningur muni með tímanum komast í hóp mikilsverðustu afvopnunarsamninga þjóða heims á borð við samninga eins og til að mynda þann sem kveður á um bann við efnavopnum, sýklavopnum og jarðsprengjum.

Staðan er sú akkúrat núna að 70 ríki hafa undirritað þennan samning og 21 ríki hefur fullgilt hann. Við þokumst því nær 50 ríkja markinu og má segja að það sé til marks um mikilvægi samkomulags eins og þess sem hér um ræðir að samtökin ICAN, sem hafa staðið að undirbúningi og því að koma þessu máli á dagskrá hjá Sameinuðu þjóðunum og hafa unnið að því í mörg ár, hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 2017. Það eru í raun ekki lítil meðmæli með samningnum. Í rökstuðningi norsku Nóbelsnefndarinnar segir að samtökin ICAN, sem fengu friðarverðlaunin, hafi átt stærstan þátt í því að leiða saman þjóðir heims og undirbúa gerð þessa mikilvæga sáttmála. Það eru á fimmta hundrað friðarhópar og félagasamtök um víða veröld sem standa að þessum merku samtökum, ICAN.

Mig langar aðeins í stuttu máli að víkja nokkrum orðum að kjarnorkuvopnum vegna þess að kjarnorkuvopn eru ekki bara eins og hver önnur vopn, og eins mikinn ímugust og ég hef á vopnum og hernaði almennt eru kjarnorkuvopn auðvitað sérlega andstyggileg vegna eyðileggingarmáttar þeirra. Með einni kjarnorkusprengju er hægt að leggja heilar borgir rúst og drepa milljónir manna. Við þekkjum hörmulegar afleiðingar þess þegar kjarnorkuvopn hafa verið notuð í hernaði. Við þekkjum öll hvernig fór fyrir íbúum borganna Hírósíma og Nagasaki þar sem um 200 þúsund manns dóu á einu augabragði í sprengingu. Fólk er enn þá að glíma við eftirköst, veikindi og erfiðleika vegna kjarnorkusprengja sem var varpað þar fyrir yfir 70 árum.

Aðdragandi samningsins er langur og sáttmálinn um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna frá árinu 1968, sem gengur oft undir nafninu NPT-samningurinn og 191 ríki er aðili að, hefur löngum verið talinn mikilvægasti afvopnunarsamningurinn á sviði kjarnorkuvígbúnaðar. Sá samningur felur í sér bann við frekari útbreiðslu þessara háskalegu vopna en jafnframt leggur hann skyldur á herðar þeim ríkjum sem þegar búa yfir slíkum vopnum um að vinna að útrýmingu þeirra. Lítið hefur borið á efndum á þeim hluta samningsins. Kjarnorkusprengjum hefur að sönnu fækkað en þær hafa þess í stað stækkað og orðið fullkomnari þannig að sprengimátturinn hefur stóraukist. Jafnframt verja flest kjarnorkuveldin svimandi háum upphæðum til þróunar nýrra og fullkomnari kjarnorkuvopna og hugmyndin um takmarkaða notkun slíkra vopna í almennum hernaði er rædd af sífellt meiri alvöru. Við erum sem sagt í alvöru stödd þar að kjarnorkuógnin fer aftur vaxandi. Í þessu samhengi er mikilvægt að nefna nýlega endurskoðaða kjarnorkuvopnastefnu Trump-stjórnarinnar í Washington, sem gerir ráð fyrir mun víðtækari beitingu kjarnorkuvopna en áður hefur verið rætt.

Mikilvægt er að hafa í huga að sprengjurnar hafa verið að stækka og eyðileggingarmáttur þeirra hefur verið að aukast, en það er þó samt svo að þessar hræðilegu kjarnorkusprengjur, sem heimurinn þó hefur reynslu af, teljast litlar í samanburði við þau vopn sem nú er verið að þróa. Því miður eru málin að verða enn dekkri en hér er lýst því að í byrjun þessa mánaðar bárust fréttir af riftingu Bandaríkjanna á öðrum mikilvægum kjarnorkuafvopnunarsamningi sem oft gengur undir nafninu INF-samningurinn eða samningurinn um meðaldrægar kjarnorkuflaugar, flaugar sem drífa á bilinu 500–5.500 km, sem sagt ekki þær langdrægu sem NPT-samningurinn hefur kannski verið að setja meiri áherslu á.

Sá samningur, um meðaldrægu kjarnorkuflaugarnar, hefur verið í gildi í um 30 ár og gengur út á það að heilum flokki kjarnorkuvopna, þ.e. þessum meðaldrægu, verði hreinlega eytt. Á því tímabili og á grundvelli þess samnings hafa Bandaríkin eytt um 850 kjarnorkuflaugum og 32 skotstæðum og Rússar um 1.850 kjarnorkuflaugum og 117 skotstæðum. Það munar nú um minna. Samningurinn hefur verið sérstaklega á milli Bandaríkjanna og Rússlands.

Ef fram fer sem horfir akkúrat núna verður enginn samningur um meðaldrægar kjarnorkuflaugar í gildi eftir 2. ágúst næstkomandi og þá eru allar líkur á því að þróun slíkra kjarnorkuvopna fari aftur á fullt skrið. Og í samhengi við önnur teikn sem eru á lofti, eins og ég vísaði til áðan, m.a. um nýlega endurskoðaða kjarnorkuvopnastefnu Trump-stjórnarinnar í Washington, er full ástæða til að hafa áhyggjur af því.

Þetta snýst auðvitað ekki bara um kjarnorkustefnu Bandaríkjanna eða kjarnorkustefnu Rússa því kjarnorkuveldin eru fleiri. Það eru níu skilgreind kjarnorkuveldi. Talið er að þessi nýju lönd eigi samtals í kringum 15.000 kjarnorkusprengjur. Því er full ástæða til að hafa uppi stór og þung orð þegar kemur að kjarnorkuvopnum. Sem betur fer hafa aðrar þjóðir heimsins tekið sig saman um að vilja banna þessi vopn. Og það er um það að gerast aðili, að ganga í lið með þeim hópi sem vill banna þessi hættulegu vopn sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á. Enda hafa andstæðingar kjarnorkuvopna lengi varað við því að eftir því sem meiri orku og fjármunum er varið í þróun og framleiðslu vopna skapist meiri þekking sem aftur stuðlar að aukinni útbreiðslu.

Því miður hefur mannkynið aldrei smíðað vopn sem það hefur svo ekki að lokum beitt. Það sýnir reynslan, því miður. Það er einmitt í ljósi alls þessa sem hópur ríkja komst að þeirri niðurstöðu að alþjóðasamfélagið yrði að ganga hart fram og leiða í lög algjört bann við kjarnorkuvopnum, enda væri fullreynt að kjarnorkuveldin myndu sjálf stuðla að útrýmingu þeirra innan gildandi sáttmála. Því miður sýnir það sig, þessa dagana, að er raunin. Samningur um að banna kjarnorkuvopn myndi byrja, eins og raunin varð til að mynda um samninginn um bann við kjarnorkusprengjum, að frumkvæði þeirra ríkja sem ekki búa yfir slíkum vopnum en verða með tímanum almennur. Þannig hefur heimsbyggðin farið að þegar kemur að því að banna skelfileg vopn.

Ríkin sem hafa leitt baráttuna fyrir því að kjarnorkuvopn verði bönnuð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eru víða í heiminum, en það er kannski ágætt að nefna Evrópulöndin sem stóðu að samþykkt málsins. Meðal þessara 122 landa sem vildu að þessum samningi yrði komið á koppinn voru Svíþjóð, Austurríki, Kýpur, Írland, Malta og Sviss. Því miður er það svo að aðildarríki NATO sniðgengu þessar viðræður við gerð sáttmálans og ekkert NATO-ríki hefur enn undirritað samninginn en það mun vonandi breytast fljótlega, m.a. eru umræður í gangi núna á Spáni. Hins vegar eru ríki á borð við Austurríki og Nýja-Sjáland í hópnum sem hefur ekki bara undirritað samninginn heldur fullgilt hann.

Ég vona að þingmálið hljóti hér brautargengi og ríkisstjórninni verði falið að gera Ísland aðila að þessum samningi. Nú þegar (Forseti hringir.) hafa 25 sitjandi þingmenn skrifað undir heit eða loforð þess efnis að vinna að því að kjarnorkuvopn verði bönnuð. Ég vona að þetta mikilvæga mál, í heimi (Forseti hringir.) sem stendur frammi fyrir því að kjarnorkuvígvæðing er aftur að færast í aukana, verði samþykkt og að Ísland verði orðið aðili að samningnum innan skamms.