149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

57. mál
[19:13]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta kjarnorkuvopnaskak nær út yfir allan þjófabálk og nær í kringum hnöttinn. Eins og hv. þingmaður nefndi og kemur fram í tillögunni, í greinargerð, kann vopnunum ef til vill að hafa fækkað en þau eru orðin margfalt öflugri. Við erum auðvitað með kjarnorkuna í notkun í friðsamlegum tilgangi, að kalla. Það er kannski ekki efni þessarar þingsályktunartillögu en hefur ekki hv. þingmaður líka áhyggjur af því? Hún er kannski nálægari okkur ógnin af kjarnorkunni sem nýtt er til að knýja skip og framleiða raforku. Hún er mjög nálæg Eystrasaltslöndunum, skulum við segja, og í hafinu í kringum okkur.

Er þetta ekki líka umhugsunarefni og höfum við einhver tök á því að hafa taumhald á þessari þróun?