149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

57. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, auðvitað geta orðið gríðarlega alvarleg slys ef eitthvað gerist í kjarnorkuverum þar sem verið er að framleiða rafmagn. En ég tel reyndar að í þessu máli sé mikilvægt að drepa umræðunni ekki á dreif og blanda saman annars vegar kjarnorkuverum, og þeirri mengunarhættu og þeim ógnum sem af þeim getur stafað, og hins vegar agressífri hernaðarhyggju og -stefnu sem endurspeglast í framleiðslu og því að áskilja sér réttinn til beitingar kjarnorkuvopna. Hér held ég að það sé mikilvægt að halda fókusnum á að við sem samfélag, sem heimur, viljum ekki líða gjöreyðingarvopn. Það er ofboðslega mikilvægt. Mönnum finnst vera á brattann að sækja þar sem kjarnorkuveldin eru ekki enn komin að borðinu þegar að því kemur að banna kjarnorkuvopn. Það er svo mikilvægt að muna það að aðrir mikilvægir afvopnunarsáttmálar hafa átt uppruna sinn í friðarhreyfingum og hjá þeim ríkjum sem ekki hafa yfir slíkum vopnum að búa. Þaðan hefur umræðan og samfélagssýnin á það að slík vopn séu ekki líðandi komið og þaðan hefur hún þróast. Það er þannig sem við getum unnið þessa baráttu, með því að þjóðir heimsins og íbúar kjarnorkuríkjanna vilji ekki líða þessi vopn.