149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

57. mál
[19:17]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég styð heils hugar þessa þingsályktunartillögu og vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að flytja hana og öðrum meðflutningsmönnum úr Vinstri grænum. Við höfum lifað við kjarnorkuvá allt frá seinni heimsstyrjöld. Það fór ekki að örla á neinni bjartsýni fyrr en á níunda og tíunda áratug síðustu aldar við lok kalda stríðsins. Við munum öll eftir mjög mikilvægum fundi í Höfða þar sem tvö stórveldi voru að semja sín á milli um það að minnka þessi umsvif kjarnorkuvopna.

Nú er þróunin aftur að snúast við. Það eru fleiri ríki sem eru komin með kjarnavopn. Það eru ekki nema 20 ár síðan það voru fimm ríki. Þau eru að nálgast tuginn sem við vitum af. Það eru fleiri ríki sem við vitum ekki af sem eru með kjarnorkuvopn. Þetta eru kannski færri vopn en þau eru stærri og þau eru öflugri. Það þýðir bara meiri eyðileggingu. Með hverju árinu sem líður er alltaf að aukast hættan á því að óvandaðir ráðamenn komist yfir þessi vopn, hvað þá hryðjuverkasamtök eða aðrir hópar, það sem við köllum „rogue“-ríki.

Mér finnst þetta óhugnanlegt. Ísland hefur sérstöðu, við erum herlaust land. Það eru ekki mörg lönd í heiminum sem geta státað af því. Ég er stolt af því og hvar sem ég fer erlendis vek ég alltaf athygli á því. Ég hef áður talað um þörfina á því að Ísland stundi sjálfstæða utanríkisstefnu í stað þess að fylgja alltaf öllum hinum. Ég held að við eigum að nota tækifærið og samþykkja þessa þingsályktunartillögu, iðka þessa sjálfstæðu utanríkisstefnu, sýna kjark og gerast frumkvöðlar innan NATO með því að samþykkja þetta.

Því það væri gaman að sjá hver viðbrögð NATO yrðu við þessu. Eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir benti á hér áðan þá eru það yfirleitt kjarnorkuvopnalaus ríki sem ríða á vaðið. Svo fylgja aðrir smám saman eftir. Það skiptir máli að sá fræjum. Ég held að hér sé tækifæri fyrir okkur til að sýna okkar sérstöðu og standa með henni og sá þessum fræjum innan NATO.