149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

endurskoðun verklagsreglna um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur.

44. mál
[18:06]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um endurskoðun verklagsreglna um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur. Málið er nr. 44, á þskj. 44. Flutningsmenn ásamt þeim er hér talar eru hv. þingmenn Ólafur Ísleifsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Þórunn Egilsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar verklagsreglur um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur og geri tillögur að átaki til að auka notkun reglnanna. Í starfshópinn verði skipaðir aðilar samkvæmt tilnefningu Neytendasamtakanna, Samtaka verslunar og þjónustu, Alþýðusambands Íslands og Viðskiptaráðs Íslands. Formaður verði skipaður af ráðherra án tilnefningar. Starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir 1. mars 2019.“

Ég velti hér strax upp, virðulegi forseti, því sem segir í síðustu setningu tillögugreinarinnar um að starfshópurinn skuli skila tillögum til ráðherra fyrir 1. mars 2019, í ljósi þess hve langt er liðið á þetta þing. Það kemur væntanlega til kasta hv. allsherjar- og menntamálanefndar þangað sem ég vísa þessu máli, að gera breytingu á þessari dagsetningu þannig að starfshópnum sé gefinn nægur tími til að sinna þessu verkefni. Þrátt fyrir að ég nefni þetta hér og leggi það til við hv. nefnd, þá leiðir það auðvitað af sjálfu sér að það þarf að taka þennan þátt til endurskoðunar.

Í greinargerð með málinu kemur fram að samhljóða tillaga var áður lögð fram á 144., 145. og 148. löggjafarþingi og er nú endurflutt óbreytt. Er lagt til að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði falið að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar verklagsreglur um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur. Það er mikilvægast að helstu hagsmunaaðilar, sem ég taldi hér upp í tillögugreininni, komi að þessum hópi.

Það hefur ýmislegt verið unnið undanfarin misseri á sviði neytendamála. En þrátt fyrir að við höfum öll skilning á því hvað við er átt þegar við vísum til neytenda er mjög mikilvægt að hafa í huga hvaða lagalega skilgreining á við. Ég ætla að vísa hér til skýrslu sem hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skilaði þinginu á 146. löggjafarþingi, um neytendamál, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Almennt má segja að vægi neytendaréttar og hagsmuna neytenda hafi farið vaxandi í löggjöf Vesturlanda á síðustu áratugum. Í sífellt meiri mæli er hugað að því við lagasetningu hvernig hún muni hafa áhrif á hagsmuni neytenda og fleiri lög og reglur eru settar í því sérstaka augnamiði að vernda hagsmuni neytenda. Ákvæði er varða neytendamál og neytendavernd í íslenskri löggjöf eru hins vegar nokkuð brotakennd og eru þau á víð og dreif. Skilgreiningar laga eru ekki að öllu leyti samræmdar …“

Er reyndar fjallað nánar um skilgreiningarnar í þessari skýrslu.

Í I. kafla laga um neytendakaup, nr. 48/2003, um gildissvið laganna, segir að með neytanda sé átt við einstakling sem kaupi söluhlut utan atvinnustarfsemi og með neytendakaupum sé átt við sölu hlutar til neytanda þegar seljandi eða umboðsmaður hans hefur atvinnu sína af sölu.

Í 2. gr. laga um neytendasamninga, frá 9. mars 2016, segir svo um skilgreiningu á hugtakinu neytandi að neytandi sé „einstaklingur sem er kaupandi í viðskiptum sem lög þessi taka til í tilgangi sem er óviðkomandi starfi hans“. Lög þessi um neytendasamninga gilda um samninga um sölu á vörum og þjónustu til neytenda þegar seljandi hefur atvinnu af því að selja vörur eða veita þjónustu. Hér má auðvitað greina sömu hugsun og þegar við vísum til neytanda.

Þá ræðum við gjarnan um neytendavitund í ýmsu samhengi neytendamála og um að efla þurfi neytendavitund. Þá gefum við til kynna að neytendavitund almennings kunni að vera almennt ábótavant þótt hún fari vaxandi á sumum sviðum.

Ég ætla hér, virðulegi forseti, að vísa í viðtal við Gísla Tryggvason, sem var að láta af embætti talsmanns neytenda þegar sú grein er birt, 8. desember 2013, á mbl.is. Þar er hann spurður hvaða verkefni fram undan séu brýnust að mati hans. Hann svarar, með leyfi forseta:

„Áríðandi er að auka neytendavitund almennt, fræða neytendur betur um réttindi sín og úrræði og hvetja þá til að gæta hagsmuna sinna og standa á rétti sínum. Ef allstór hluti neytenda temur sér að gera kröfur til og hafa eftirlit með seljendum þá bæði gæta þeir réttar sjálfra sín og með því réttar annarra um leið.“

Þetta segir Gísli í þessu viðtali. Hægt er að finna mörg fleiri dæmi um slíka umræðu og tilvísanir til neytendaverndar og gjarnan á þeim nótum að efla beri hana.

Ég ætla að vísa aftur í þá skýrslu sem hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagði fyrir þingið 2016. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þótt íslenskir neytendur standi kannski upplýstum neytendum Norðurlandanna að baki varðandi neytendavitund er ýmislegt sem bendir til þess að vitund okkar sem upplýstra neytenda fari vaxandi.“

Segir enn fremur í þessari skýrslu:

„Mikilvægt er að efla réttindi neytenda hér á landi með nauðsynlegum lagabreytingum en það er ekki síður mikilvægt að efla neytendavitund hins almenna neytenda.“

Við ræðum þetta því gjarnan og rekumst á þetta víða í skýrslum og umræðum án þess kannski að við höfum einhvern sérstakan mælikvarða á það hvar við stöndum. En engu að síður er augljóst hversu mikilvægt er, þar sem neytendamál, neytendavernd og neytendaréttur koma víða við í löggjöf, að við hugum að þessu. Þetta mál sem ég mæli hér fyrir er til þess, getum við sagt.

Neytendavitund almennings er almennt ábótavant þótt hún fari vaxandi á sumum sviðum. Almenna reglan í neytendakaupum er sú að neytandi á ekki lagalegan rétt á að skila ógallaðri vöru sem hann hefur fest kaup á. Undantekningu frá þessari reglu er að finna í lögum um neytendasamninga, nr. 16/2016, en samkvæmt 17. gr. þeirra laga — sú grein fjallar um frest til að falla frá samningi — rennur frestur til að falla frá samningi út 14 dögum eftir að gengið var frá samningi um kaup á vöru eða þjónustu. Neytendum og kaupmönnum eru hins vegar frjálst að semja um ákveðinn skilarétt. Er það gert í mörgum tilfellum með því að verslanir setja sér reglur um skilarétt sem neytendur ganga að með kaupum sínum. Það er hins vegar bagalegt að verslanir setji sér mismunandi reglur og neytendur eiga því oft erfitt með að finna út hvaða reglur gilda um einstök kaup. Þetta á sérstaklega við t.d. í jólaversluninni þegar mikið er verslað og þessar reglur eru mismunandi og alla jafna meira um það að fólk sé að skila vöru og jafnvel að fá sömu vöruna í jólapakka.

Afar mismunandi er hversu langan tíma verslanir veita neytendum tækifæri til að skipta vörum sem þeir hafa fengið og í sumum tilfellum er aðeins um örfáa daga að ræða. Neytendastofu og Neytendasamtökunum og fleirum berst iðulega nokkur fjöldi kvartana vegna þessa skamma frests og er því ljóst að þetta kemur sér illa fyrir marga neytendur, m.a. íbúa landsbyggðarinnar sem hugsanlega komast ekki í tæka tíð í verslun á höfuðborgarsvæðinu til að skipta gjöfum og geta því setið uppi með nokkur eintök af sama hlutnum.

Þá gilda einnig mismunandi reglur um gildistíma gjafabréfa og inneignarnótur. Gildir hin almenna regla um fyrningu kröfuréttinda, þ.e. gjafabréfið eða inneignarnótan gildir þá í fjögur ár frá útgáfu. Margar verslanir og þjónustuaðilar veita hins vegar skemmri frest og er þriggja til sex mánaða frestur algengur. Hafa þarf í huga að þegar neytandi festir kaup á gjafabréfi er hann að leggja fé inn í rekstur þess fyrirtækis sem hann verslar við og alls kostar óeðlilegt og raunar ósanngjarnt að svo skammur tími sé veittur til að taka út vörur fyrir inneign. Leiða má líkur að því að neytendur verði árlega af nokkuð háum fjárhæðum vegna þessa.

Mismunandi reglur sem verslanir hafa sett sér voru að hluta til ástæða þess að árið 2000 gaf viðskiptaráðherra, nú hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, út almennar verklagsreglur um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur. Verklagsreglurnar er að finna m.a. á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og vísað er til um skilarétt þennan m.a. á vef Neytendastofu. Reglurnar eru valfrjálsar þannig að seljendur geta ákveðið sjálfir hvort þeir bjóða neytendum skilarétt samkvæmt verklagsreglum eða setja sér sínar eigin reglur. Meginatriðið í verklagsreglunum er að neytendur eiga a.m.k. 14 daga skilarétt. Vörur sem merktar eru með gjafamerki gera kassakvittun óþarfa við skil. Inneignarnótur skulu miðast við upprunalegt verð vöru. Gjafabréf og inneignarnótur skulu gilda í allt að fjögur ár frá útgáfudegi og skilaréttur tekur ekki til útsöluvöru nema um annað hafi verið samið.

Nú eru komin 17 ár frá því að þessar reglur voru settar og eðlilegt að skoðað verði hvort ekki megi uppfæra þær í takt við breytta verslunarhætti. Og af því að ég hef nú vísað hér, virðulegi forseti, í skýrslu hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, er samhljómur með greinargerð í þessu máli og þeirri skýrslu. Með þessu máli er leitast við að tryggja réttarstöðu neytenda með samræmdum hætti sem leiði til aukinnar vitundar neytenda um réttindi sín. Því miður hefur lítið borið á því að seljendur styðjist við reglurnar heldur eru í gangi mismunandi reglur sem seljendur setja sér sjálfir og það skapar auðvitað óvissu og óöryggi fyrir neytendur. Það getur haft margvísleg jákvæð áhrif fyrir verslun í landinu að verklagsreglurnar séu í almennri notkun. Starfshópnum, sem vísað er í í tillögugrein, ber því að leita leiða til að fjölga þeim seljendum sem styðjast við verklagsreglurnar og auka þekkingu neytenda á þeim. Það má segja að verklagsreglurnar í sjálfu sér eru nokkuð skýrar en misbrestur er á því að þær séu almennt notaðar þannig að samræmi sé til staðar gagnvart neytendum. Rétt kann að vera að ráðast í sérstakt kynningarátak á verklagsreglunum í kjölfar vinnu starfshópsins við endurskoðun reglnanna og reyna þannig að stuðla að því að fleiri verslanir styðjist við þær.

Verslun hér á landi á undir högg að sækja gagnvart verslun á netinu og sífellt fleiri kjósa að versla á netinu frá útlöndum þar sem verð er oft hagstæðara og neytendur hafa 14 daga rétt til að falla frá kaupum ef verslað er við seljanda innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það verður þó að hafa í huga að réttindi neytenda þegar þeir versla við aðila í öðru landi eru oft lakari en ef verslað er við kaupmenn hér á landi og á það sérstaklega við ef verslað er við netverslanir í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá getur einnig verið erfitt að leysa úr ýmsum vandamálum með seljendum í öðru landi sem kunna að koma upp.

Ég ætla að vísa enn og aftur í skýrslu hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, en það hefur ýmislegt verið gert á sviði neytendamála og í skýrslunni er vísað til hóps sem um mitt ár 2014 tók til starfa, starfshóps um stefnumörkun í neytendamálum, og var skipaður fulltrúum allra þingflokka sem þá áttu sæti á Alþingi. Afrakstur þeirrar vinnu var þingsályktunartillaga þar sem fyrsti flutningsmaður var þáverandi hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir. Sú tillaga sem ég mæli fyrir hér er að hluta til úr þeirri afurð, þeirri þingsályktunartillögu.

Ég vil rétt í lokin árétta að með skýrari framsetningu á verklagsreglum um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur styrkist staða innlendrar verslunar gagnvart erlendri netverslun þar sem neytendur verða meðvitaðri um réttindi sín og geta gengið að samræmdum reglum sem vísum. Skýrar verklagsreglur um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur eru þannig neytendum og seljendum til hagsbóta til lengri tíma litið.

Ég verð að (Forseti hringir.) ljúka framsögu minni, virðulegur forseti, og vísa málinu til hv. allsherjar- og menntamálanefndar með von um að það nái fram að ganga.