149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

samningar við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara.

[14:14]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið og tek undir að mikilvæg sé að þetta bitni ekki á sjúklingum og að aðgengi sé tryggt. Það eru einmitt fjölbreytt úrræði sem verða ekki tryggð nema lokið verði við samningana. Ég vona því að ég skilji það rétt að hæstv. ráðherra vilji ljúka þeim.

Varðandi sjúkraþjálfarana og það sem ráðherrann kemur kannski aðeins inn á í seinna svari er auðvitað gríðarlega mikilvægt að allar hagræðingar hvað það varðar séu vel ígrundaðar. Endurhæfing sem sjúkraþjálfarar sinna er gífurlega mikilvæg og fjölmargir nýta sér þá þjónustu, 50.000 manns árið 2017 til að mynda, sem eru veglegur fjöldi fólks hér á landi. Ef við gætum þess ekki að samið sé við þá aðila skynsamlega getur það komið niður á kerfinu okkar víða annars staðar.

Hver er nánari staða samninga við sjúkraþjálfara? Ég vona að við séum öll sammála því að ótækt sé að ekki verði samið við þessar stéttir.