149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Það er sérkennilegt að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar skuli kvarta mikið yfir því að málið hafi ekki verið meira rætt en svo þegar menn vilja fara að ræða málið af alvöru í 2. umr. málsins, sem er nú yfirleitt meginumræðan um þingmál, þá er hann lítið fyrir að taka þátt í þeirri rökræðu sem ég tel vera nauðsynlega um þetta mál.

Bara svo ég gleymi því ekki þá ætla ég að leiðrétta það sem hv. þingmaður sagði undir lok síðustu ræðu sinnar, að menn hefðu búið við hálfgert vaxtaleysi. Þessir aðilar voru flestir fóðraðir mjög vel á vöxtum í tíð vinstri stjórnarinnar og fengu meira að segja að taka þá út fyrir höft. En meira um það síðar.

Það er rétt sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar nefndi að það sem nú er rætt hófst í raun með kynningu á áformum stjórnvalda um losun hafta. En það á hins vegar ekkert skylt lengur við það sem þar var kynnt. Þvert á móti hefur verið tekin algjör U-beygja í þeirri stefnu sem þá lá fyrir. Þess vegna finnst mér við hæfi að rifja upp hvernig það plan leit út sem kynnt var í maí 2015, einkum að því leyti sem það sneri að þessum aflandskrónum sem við ræðum nú.

Þegar áform stjórnvalda voru kynnt kom skýrt fram að aðgerðirnar væru þríþættar. Í fyrsta lagi sneru þær að slitabúum föllnu fjármálafyrirtækjanna og stöðugleikaskatti eða stöðugleikaframlögum þeirra. Í öðru lagi að aflandskrónunum, málinu sem enn er óleyst núna nærri fjórum árum seinna, og hefur ekki verið fylgt eftir á þann hátt sem lagt var upp með. Og í þriðja lagi snerust aðgerðirnar um raunhagkerfið sem svo var kallað, þ.e. aukið frelsi, varúðarreglur og fjárfestingarheimildir fyrir innlenda aðila.

Það er ekkert vafamál, eins og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar reyndar nefndi, að aðgerðirnar skiluðu ótrúlegum árangri, svo miklum að ekkert land hefur náð eins hröðum, efnahagslegum viðsnúningi og Ísland eftir að þessar aðgerðir voru kynntar og fyrst og fremst fyrir tilstilli þeirra.

Hér áðan var verið að ræða um þá mikilvægu atvinnugrein ferðaþjónustuna, stærstu útflutningsgrein landsins. Framlag ferðaþjónustunnar til ríkisins og efnahagslegrar stöðu þess er aðeins brot, aðeins 1/20 eða 1/30 af því sem þessar aðgerðir skiluðu í efnahagslegum viðsnúningi fyrir ríkið. Með öðrum orðum: Tekjur af ferðaþjónustunni þyrftu að safnast saman í alla vega 20 ár til að standast þann samanburð. Það dregur ekki úr mikilvægi þeirrar greinar, það er gríðarlegt, en sýnir kannski þess heldur mikilvægi þessara aðgerða.

En þá hlýtur maður að velta fyrir sér, í ljósi þess hversu góður árangur náðist með þessum fordæmalausu aðgerðum, því það þurfti að í rauninni finna upp allar lausnirnar á þessum fordæmalausa vanda, en í ljósi þess hvað það gekk vel. Hvers vegna vildu menn ekki klára verkefnið eins og lagt var upp með á fyrsta degi og fylgt eftir skref fyrir skref, jafnt og þétt, sem heildaráætlun þangað til vorið 2016 og svo ekki síður eftir stjórnarskipti í byrjun árs 2017?

Rekjum aðeins hvernig þetta var útskýrt í planinu í upphafi, liður tvö, aflandskrónur. Það kom fram að nauðsynlegt væri að eyða greiðsluóvissu vegna aflandskróna og að þær væru innlán, ríkisverðbréf og ríkisbréf í eigu erlendra aðila. Það var viðurkennt einu sinni sem oftar í þessari greinargerð að fjármagnshöft hefðu verið nauðsynleg til að takast á við vandann, en þeim mun mikilvægara væri að standa rétt að því að aflétta þeim. Mjög stór hluti af því — og þetta kem ég inn á nokkrum sinnum hér á eftir, ekki hvað síst í ljósi orða hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar — væri að fást við eða koma í veg fyrir það sem á ensku er kallað við þessar aðstæður „hold-outs“ og við köllum á íslensku eftirlegukindur. Koma í veg fyrir að einhverjir sæju sér hag í því að spila ekki með, láta aðra taka á sig kostnaðinn og bíða og treysta á að þeir yrðu ekki knúnir til að leggja sinn skerf af mörkum, eftirlegukindurnar. Það var sérstaklega tekið á því, bæði í tilviki slitabúanna og gagnvart eigendum aflandskróna, sem eru kannski að miklu leyti sams konar aðilar, vogunarsjóðir, að menn færu ekki vel út úr því að verða eftirlegukindur.

Mikilvægt er að árétta það að eigendur þessara aflandskróna eru í langflestum tilvikum ekki upprunalegir eigendur heldur hafa þær skipt um hendur og eru í eigu eða hafa verið í eigu tíu vogunarsjóða eða svo. Þeim kann að hafa fækkað á undanförnum árum.

Þessir aðilar sem keyptu aflandskrónurnar eftir bankahrunið keyptu þær að sjálfsögðu á afslætti vegna þess, eins og var útskýrt í þessu öllu saman, að aflandskrónur voru ekki lengur það sama og venjulegar íslenskar krónur. Þær voru eiginlega orðnar annars konar gjaldmiðill, enda hægt að gera miklu minna við þær. Þar af leiðandi voru þær á öðru verði.

Það hefur komið fram og kom fram á sínum tíma að flestir þessara aðila hafi selt fyrri eigendum aflandskróna evruna á í kringum 300 kr., a.m.k. í mörgum tilvikum hafi sú verið raunin. Þeir hafi keypt þetta á því verði, 300 kr. af aflandskrónum fyrir eina evru. Gengi íslensku krónunnar var að sjálfsögðu allt annað á þeim tíma. En þeir vissu líka að þeir gætu kannski ekki vænst þess að fá seðlabankagengi fyrir aflandskrónurnar sem þeir keyptu 300 af fyrir eina evru. Það kom meira að segja fram í bókum þessara fyrirtækja. Sum þeirra birta eignayfirlit og þar birtist, í alla vega tveimur tilvikum hjá hinum stærri vogunarsjóðum, mat á bilinu 190–210 kr. á evruna.

Með öðrum orðum: Þeir gerðu ráð fyrir að verðmæti þessara króna væri slíkt að þeir gætu kannski keypt evru á endanum fyrir eins og 200 kr. Höfðu selt evrur fyrir 300 kr. en töldu að þeir gætu svo keypt evrur aftur á 200 kr. stykkið. Það var þeirra mat. Og auðvitað allt annað gengi en gengi Seðlabankans enda voru þetta aflandskrónur en ekki eiginlegar íslenskar krónur þegar hér er komið sögu.

Grípum þá aftur niður í kynningu stjórnvalda á aðgerðunum við haftalosunina, um lið tvö, liðinn sem sneri að aflandskrónum. Þar segir einmitt að tíu fagfjárfestar, vogunarsjóðir, eigi meiri hluta aflandskrónanna. Meginhluti aflandskrónueigna sé í formi innlána hjá erlendum fjármálafyrirtækjum eða í formi markaðshæfra verðbréfa og að eftir innleiðingu fjármagnshafta hafi orðið ljóst að aflandskrónur voru kvikar eignir sem leituðu útgöngu.

Þá að þessu með vaxtagreiðslurnar sem ég nefndi aðeins áðan. Hér segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að almennt bann væri sett við innflutningi á aflandskrónum var eigendum þeirra gert mögulegt að fjárfesta í ákveðnum tegundum fjármálagerninga og hefur um 70 milljörðum kr. verið skipt á gjaldeyrismarkaði og greiddir út í formi vaxtagreiðslna til aflandskrónueigenda.“

Þeir tóku sem sagt 70 milljarða kr. út í formi vaxtagreiðslna áður en var skrúfað fyrir það. Það er ekki eins og þeir hafi verið vaxtalausir allan tímann.

Þá birtist hér glæra þar sem er sýnt skref fyrir skref hvernig eigi að leysa þennan þátt vandans, aflandskrónuvandann. Segir í fyrirsögn:

„Aflandskrónuvandinn: Leystur með uppboðum á gjaldeyri og sölu skuldabréfa í íslenskum krónum og evrum með endurgreiðsluferli sem samræmist greiðslujöfnuði.“

Þetta eru þrír liðir og liður A er gjaldeyrisuppboð. Nú bið ég hv. þingmenn, ekki hvað síst hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar, að bera þessa lýsingu á atburðarás saman við það sem svo gerðist. Ég mun hins vegar gera það fyrir hann á eftir líka.

„A. Gjaldeyrisuppboð. Gjaldeyrisuppboð í haust.“ — Það átti að fara fram í október 2015. — „Kröfuhafar greiða viðbótargjald fyrir útgöngu úr gjaldeyrishöftum, hlutlaust á gjaldeyrismarkaði. Uppboðið hefur engin áhrif á gengi íslensku krónunnar á markaði.

B. Ríkisskuldabréf til langs tíma. Ríkisskuldabréf til 20 ára með endurgreiðsluferli sem samræmist langtímagreiðslujöfnuði þjóðarbúsins og útgöngugjaldi fyrstu 7 árin. Kjör skuldabréfsins verða ákvörðuð með uppboðsfyrirkomulagi í haust.“ — Sem sagt í október 2015. — „Skiptiútboð. Annað skuldabréf til meðallangs tíma í evrum.“

Þá er það liður C, vaxtalausir reikningar. Þar er undirstrikað: Afarkostir.

„Læstir reikningar til langs tíma án vaxta, fyrir þá sem ekki hlíta skilyrðum stjórnvalda. Kjör versna yfir tíma og gera það að óverjandi kosti fyrir fjármagnseigendur að velja vaxtalausa reikninga til frambúðar.“

Ég ætla að endurtaka þessa síðustu setningu: Kjör versna yfir tíma og gera það að óverjandi kosti fyrir fjármagnseigendur að velja vaxtalausa reikninga til frambúðar.

Að þessu unnu þeir sem höfðu stýrt vinnu við haftaafnámið í samráði við Paul Klemperer, sem er doktor við Oxford-háskóla og, eins og segir hér, „hefur hannað og stýrt uppboðsferli fyrir Englandsbanka og Seðlabanka Bandaríkjanna á undanförnum árum með eftirtektarverðum árangri“. Ég veit ekki hvað varð um Paul Klemperer eftir að stefnubreytingin varð en þær leiðir sem voru svo farnar eru mjög ólíkar því sem hér var lagt upp með.

Svo er lögð sérstök áhersla á það á heilli glæru að endanleiki uppboðsaðferðarinnar hennar verði að vera tryggður fyrir fram:

„Uppboðsaðferðin tryggir að böndum verður komið á allar aflandskrónur og kemur í veg fyrir eftirlegukindur á meðal aflandskrónueigenda.

Að loknum uppboðum í október 2015 verður niðurstaðan sú að 300 milljarðar kr. í aflandskrónum verða festir til langs tíma í fjárfestingu á Íslandi eða umbreytt í gjaldeyri með uppboðsfyrirkomulagi. Þar með er stöðugleiki vegna aflandskrónuvandans tryggður.

Þeir aflandskrónueigendur sem nýta uppboðið til að bjóða í gjaldeyri í skiptum fyrir íslenskar krónur munu greiða fyrir það verulegt álag. Þeir munu bera nauðsynlegan kostnað af því að losna undan gjaldeyrishöftum og uppboðsfyrirkomulagið tryggir að fjárfestar greiði álag fyrir forgang út úr gjaldeyrishöftum.“

Svo segir hér að lokum:

„Lausn vandans tryggð: Allir lausir endar hnýttir — jafnvægi milli hagsmuna þjóðarinnar og aðgerða stjórnvalda gagnvart aflandskrónum.“

Þessi mál voru ókláruð vorið 2016 þegar ég lýsti því sérstaklega í öllum þeim viðtölum sem ég fór í, held ég, þegar ég tilkynnti að ég stigi um tíma til hliðar sem forsætisráðherra, að ég gerði það ekki síst vegna þess að ég teldi það mikilvægt að þessi mál yrðu kláruð í samræmi við það sem lagt var upp með. Þess vegna vildi ég vinnufrið fyrir ríkisstjórnina og ekki hafa aðra ráðherra með mér í burtu á meðan heldur geta treyst því að þeir ynnu að þessu.

En svo gerðist nú frekar lítið fyrr en fór að verða vart stefnubreytingar. Gjaldeyrisuppboðinu, sem fara átti fram í október 2015, hafði verið frestað að beiðni Seðlabankans og hugsanlega hefur fjármálaráðuneytið komið þar við sögu líka, og stóð til að halda það vorið 2016. En svo loksins 25. maí 2016 kynnti Seðlabankinn að til stæði að fara í gjaldeyrisútboð þann 16. júní 2016. Það var kynnt á hvaða forsendum það væri gert og það væri liður í heildaraðgerðum stjórnvalda.

Þá hófst hreint ótrúleg saga, sem ég held að ég verði að fá að rekja hér, forseti, svo hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar og fleiri þingmenn átti sig á því hvers vegna ég kem ekki bara hingað upp til að fagna því að menn hafi klárað planið. Ég er þvert á móti að útskýra að menn hafi í veigamiklum grundvallaratriðum horfið frá planinu og tjónið af því sé umtalsvert og nú sé kannski verið að stíga síðasta skrefið í þeim efnum.

Seðlabankinn kynnti þarna í maí með hvaða hætti þetta útboð færi fram. Ef aflandskrónueigendur byðu til sölu meira en 175 milljarða kr. og 1 kr., þ.e. ef það væri meira en 175 milljarðar og ein króna — fengju menn gengið 190 kr., þ.e. fengju eina evru fyrir hverjar 190 kr. Ef eftirspurn eftir evrum, eftir því að losna í gegnum þetta útboð, yrði ekki nema á bilinu 0–50 milljarðar færu menn út á genginu 210 kr. En allir fengju að fara út á sama gengi. Þetta væri háð þátttökunni í útboðinu. Þarna var Seðlabankinn með til sölu í kringum 180 milljarða kr.

En hvað gerðist svo? Jú, Moody's, lánshæfismatsfyrirtækið, fagnar þessu strax og telur þetta tímabært. Seðlabankinn birtir frétt um það. Og svo aðra frétt 8. júní 2016 þar sem er áréttað hvenær útboðið fari fram og hverjar reglurnar séu. Sérstaklega er tekið fram að þetta sé í samræmi við áform um losun hafta eða liður í þeim. En daginn eftir að Seðlabankinn áréttar að hann sé að fara í þetta útboð og skýrir reglurnar enn frekar kemur eitthvað upp á. Seðlabankinn sendir frá sér frétt um breytingar á útboðsskilmálum vegna kaupa Seðlabanka Íslands á íslenskum krónum í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri. Það felur m.a. í sér að frestir voru lengdir.

Hér, að því er kom fram í fjölmiðlum, hafa menn átt samtöl við fulltrúa þessara svokölluðu vogunarsjóða sem þrátt fyrir verðmat sitt á sínum bókum voru farnir að telja líkur á því að þeir gætu kannski náð einhverju meiru út úr íslenskum stjórnvöldum, svona eins og ástandið var að þróast, höfðu upplifað og tekið eftir áherslubreytingum í pólitíkinni. Áhuginn á þátttöku í þessu útboði er því takmarkaður og Seðlabankinn bregst við með því að framlengja frestinn.

Hér eru náttúrlega vogunarsjóðirnir komnir með enn frekari staðfestingu á því að það sé kannski hægt að eiga betur við þessi stjórnvöld en áður var.

Hvað gerist fimm dögum seinna, 13. júní 2016? Það er aftur: Úps. Seðlabankinn sendir frá sér tilkynningu um að skilmálum verði breytt. Það er þá væntanlega til að koma til móts við vogunarsjóðina enda segir hér — alveg ótrúleg setning — „… ásamt því að ekki er lengur gerður áskilnaður í 5. gr. um að tilboðum undir 190 kr. pr. evru verði hafnað að fullu.“

Bankinn er sem sagt að tilkynna að það sé ekkert að marka reglurnar sem lagt var upp með og að 190 kr. séu besta verð sem menn gætu hugsanlega fengið. Hann er í rauninni að segja: Ja, þið getið svo sem boðið eitthvað sem hentar ykkur betur og við munum skoða það. Með öðrum orðum: Allt kerfið sem lagt var upp með í uppboðinu er fallið um sjálft sig og trúverðugleikinn, sem var grundvallaratriði eins og margítrekað var þegar planið var kynnt, byrjaður að renna út í sandinn.

Þetta var hins vegar bara byrjunin. Ég verð að biðja forseta að setja mig aftur á mælendaskrá svo ég geti haldið áfram með þessa ótrúlegu sögu alla saman.