149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:34]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni kærlega fyrir. Það er hægt að svara í langri ræðu. Ég hef ekki langan tíma þannig að ég ætla aðeins að hugsa hvað ég myndi gera. Mitt fyrsta verk væri að afnema krónu á móti krónu. Við höfum talað um að það kosti 1,1 milljarð, ég held að það hafi samt verið hækkað upp í 2 milljarða fyrir skömmu. En gefum okkur að þarna sé farnir 2 milljarðar af 8–10 milljörðum. Síðan þarf að veita aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið sem verður ekki gert öðruvísi en að endurskipuleggja það.

Ég hef töluvert fylgst með því sem verið er að gera í Danmörku og þar eru menn með svokölluð súpersjúkrahús, þau eru nokkur í landinu, en þess utan eru þeir með önnur sjúkrahús þar sem framkvæmdar eru liðskiptaaðgerðir, augnsteinaaðgerðir og aðrar aðgerðir sem hafa einhvern fyrirsjáanleika. Við gætum farið þá leið. Við gætum hreinlega skoðað hvað þarf að gera. Mér skilst að staðan sé þannig í dag í heilbrigðiskerfinu, og þá sérstaklega innan heilsugæslunnar sem á að vera fyrsti viðkomustaður, að allt sé í lamasessi, fólk kemst ekki til læknis. Ég myndi byrja þar.