149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[20:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa yfirferð og þessa góðu ræðu. Eins og við þekkjum hefur hann náttúrlega yfirburðaþekkingu á þessu máli sem forsætisráðherra sem leiddi mjög mikilvæga vinnu í þessum efnum, fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Mig langaði að fá aðeins vangaveltur hjá hv. þingmanni varðandi áhrif á gengi krónunnar. Áhrifin velta svolítið á því hversu stór hluti kaupir gjaldeyri og það er alveg ljóst að þessi breyting mun hafa áhrif á gengi krónunnar. Maður veltir því fyrir sér hvernig það kemur inn í þetta árferði núna. Það er talað um að frumvarpið sé lagt fram m.a. vegna þess að nú séu réttar aðstæður í þjóðfélaginu til þess. Við sjáum það alveg fyrir okkur að ef gengið fellur, þetta eru náttúrlega háar upphæðir sem hér um ræðir, um 84 milljarðar kr., kemur það til með að hafa áhrif á lán heimilanna og landsmenn með mjög neikvæðum hætti og við erum að fara í kjaraviðræður þannig að þetta getur haft heilmikil áhrif þar.

Í ljósi þekkingar hv. þingmanns á málinu væri gott að fá hans hugleiðingar um það hvort hann telji að það sé veruleg hætta á því að gengið komi til með að lækka töluvert. Það er sagt í frumvarpinu að Seðlabankinn sé vel í stakk búinn til að mæta því en það kostar peninga og það væri gott að fá hugleiðingar hv. þingmanns hvað þetta varðar.