149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisandsvar og byrja á að víkja að því sem hann endaði á, að ekki skuli vera þátttaka annarra stjórnmálaflokka í umræðunni en Miðflokksins. Það finnst mér afar einkennilegt. Eini þingmaðurinn sem tekið hefur til máls af hálfu Samfylkingarinnar er varaþingmaður. Ég verð að segja eins og er að það kemur mér á óvart að Samfylkingin, sem hefur nú gefið sig út fyrir að vera umhugað um verkafólk þessa lands, hafi engar áhyggjur af því að gjaldmiðillinn okkar gæti orðið fyrir verulegum skakkaföllum ef þetta gengur eftir og það myndi þá að rýra kjör almennings verulega.

Eins varðandi fjárlaganefndina þá er ég er mjög hissa á því að t.d. formaður fjárlaganefndar skuli ekki taka þátt í þessari umræðu vegna þess að það er alveg augljóst að þetta frumvarp mun hafa áhrif á ríkissjóð. Það er alveg klárt.

Fyrir skömmu kom fjármálaráðuneytið á fund nefndarinnar þar sem verið var að ræða áhættur í fjárlagagerðinni. Þar er hvergi minnst á þetta mál. Þetta er bara stór áhætta og getur breytt þeim forsendum sem gengið er út frá í fjárlagavinnunni.

Að lokum, af því að hv. þingmaður minntist á hugveitur, þá þekki ég að þessar hugveitur eru reknar fyrir styrktarfé að stórum hluta. Það læðist einfaldlega að mér sá grunur að þeir vogunarsjóðir sem hér hafa verið nefndir styrki þessar hugveitur, og þá (Forseti hringir.) gagngert í þeim tilgangi til að fá þær til að fjalla um ákveðin málefni og reyna að hafa áhrif á mál (Forseti hringir.) eftir sínu höfði. Þannig að já, ég tel að þessar hugmyndir geti svo sannarlega (Forseti hringir.) tengst þeim aðilum sem hér koma við sögu.