149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni kærlega fyrir þessa ræðu sem var mjög fín og margt í henni sem væri hægt að spyrja um. Ég líkt og þingmaðurinn skil ekkert í því að menn skuli í fyrsta lagi reyna að henda þessu frumvarpi inn í gegnum gullna hliðið eins og kerlingin skjóðunni á sínum tíma þegar allt er í hers höndum, hvað þá heldur að menn skuli láta sér detta í hug að koma með þetta frumvarp fram núna og ætlast til þess að klára það í tveimur umferðum á einu síðdegi. Ég næ ekki þeim hugsunarhætti.

Hv. þingmaður hefur talað bæði í síðustu ræðu sinni og áður um fordæmið sem þessi vinnubrögð gefa, að viðskiptaaðilar Íslands og/eða andstæðingar í útlöndum sjái að þeir geti í sjálfu sér komist upp með hvað sem er gagnvart íslenska ríkinu. Þess vegna dettur mér í hug að það vill svo til að ég spurði hæstv. fjármálaráðherra bæði 2015 og í fyrra um innflæði erlends áhættufjármagns. Það kemur í ljós að á þremur árum, árunum 2015, 2016 og 2017, rata hingað alls um 300 milljarðar kr. Við erum að tala um það núna að losa 83 á þessum ofurkjörum eða með þessum afarkostum sem við erum að gangast undir.

Nú spyr ég hv. þingmann hvort hann telji líkur á því eða áhættu á því að sá stabbi sem hingað hefur ratað á þremur árum, 300 milljarðar, gæti í sjálfu sér verið tekinn hér út með nokkru hraði, svona eins og teppi væri kippt undan okkur, hvort hann telji áhættu á því að menn færist allir í aukana við þessa mjög þénugu afgreiðslu núna sem þeir fá hér og hugsi sér gott til glóðarinnar að kippa út, viðstöðulítið og án mikilla viðbragða, þessum 300 milljörðum sem þeir hafa hent hér inn í landið á þremur árum.