149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[22:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var mjög gott innlegg hjá hv. þingmanni. Nú er ég ekki maður sem liggur yfir markaðnum á hverjum einasta degi, en ég hef ekki alveg gert mér grein fyrir því hvort markaðurinn hefur verið órólegur frá 14. desember þar til í gær, ég hef ekki alveg tekið eftir því. En markaðurinn hefur kannski bara verið róaður með öðrum aðferðum en því að leggja þetta frumvarp fram á sínum tíma, 14. desember, fyrst því var kippt til baka. Eða kannski hafa menn bara dottið í jólaskap og þess vegna verið rólegir fram yfir áramótin. Það kann að vera. En eins og ég segi, ég ligg ekki yfir markaðnum á hverjum degi og hef ekki orðið var við að hann væri mjög órólegur út af þessu máli.

Auðvitað ber að kalla Seðlabankann fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og spyrja: Hvað hefur gerst frá því í gær þegar hér var það sem á ensku er kallað „deadline“, eða síðustu tímamörk. Það væri út af fyrir sig einnar messu virði og þar sem ég sit ekki í hv. nefnd hefði ég alveg verið til í, eins og konan sagði fyrir norðan, að vera dauð fluga á vegg á meðan seðlabankastjóri og talsmenn útskýra það fyrir efnahags- og viðskiptanefndarmönnum hvað ber svo brýnt að. Af hverju þarf að samþykkja þetta mál í gær? Af hverju þarf að ganga frá því í gær? Og er okkur þá óhætt að ganga frá því í dag eða á morgun eða hinn daginn fyrst við gerðum þetta ekki í gær? Er markaðurinn órólegur? Við þurfum að kanna það. Hefur hann verið órólegur í dag? Nú þarf maður að fletta upp til að vera viss. En ég get ekki betur séð en að þetta sé enn ein leið til þess að reyna að rugga bátnum og gera menn órólega út af engu. (Forseti hringir.) En það er kannski líka bara út af því að fólkið sem leggur þetta frumvarp fram býr við alveg endalaust kjarkleysi og kannski (Forseti hringir.) heldur það að við séum öll svoleiðis. Við í Miðflokknum erum ekki þannig. Við höfum nógan kjark.