149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni hvað þetta varðar, hversu undarlegt þetta er. Ég myndi bæta því við skýringar hv. þingmanns að svo væru af þessu ýmis jákvæð áhrif sem erfiðara væri að setja ákveðna tölu á. Ég hitti ágætan eldri mann úr Skagafirði bara síðast í fyrradag sem sagði mér að hann langaði ekki að hætta að vinna. Hann fengi eiginlega ekkert út úr því peningalega en hann væri bara svo miklu hressari og liði betur á meðan hann væri að vinna. Hann taldi að það að gefa fólki aukin tækifæri til þess myndi spara, t.d. í heilbrigðiskerfinu, umtalsverðar upphæðir og þær eru fljótar að hlaðast upp upphæðirnar í heilbrigðiskerfinu. Þarna erum við annars vegar með réttlætismál sem allt mælir með að ráðist sé í. Stjórnvöld hlusta ekki á það. Svo er reynt að lauma í gegnum þingið eftirgjöf til vogunarsjóða í New York upp á tugi milljarða króna. Maður fær þetta ekki til að ganga upp, hvernig sama fólk getur komið fram með svo ólíkum hætti.