149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var öflug ræða og setti hlutina ágætlega í samhengi. Í raun ættu þingmenn, sérstaklega þeir þingmenn sem eru ekki í salnum, að líta á hana sem hvatningu því að hv. þingmaður var að hvetja menn til dáða, segja þeim að koma út úr búningsklefanum, enda er viðkomandi hv. þingmaður ekki þekktur að því að gefast upp, hvorki á sviði íþrótta né annars staðar. Maður með svarta beltið í karate og svarta beltið í pólitíkinni líka, eins og við heyrðum hérna áðan.

En af því að hv. þm. Karl Gauti Hjaltason setti hlutina, upphæðirnar sem um er að ræða — þótt að þær séu auðvitað mjög á reiki því að stjórnvöld hafa ekki sýnt fram á hversu miklu er verið að fórna, við vitum bara að það nemur tugum milljarða — í samhengi við það sem stjórnvöld eru ekki tilbúin að setja fjármagn í, persónuafsláttinn, eins og stöðu eldri borgara, þá getur maður ekki annað en velt fyrir sér hvað valdi. Hvað gerir mönnum svona auðvelt að gefast upp í þeim kappleik, ef svo má segja, gefast upp fyrir aðgangshörðustu eða ósvífnustu vogunarsjóðunum en svo eru menn ekki tilbúnir að liðka neitt til eða samþykkja svo mikið sem eina einustu breytingartillögu við fjárlög sem kemur til móts við þá sem minnst hafa í samfélaginu, þó að þær breytingartillögur, a.m.k. sem við höfum lagt fram og hv. þingmaður, kosti einungis brotabrot af því (Forseti hringir.) sem menn vilja kasta frá sér hérna umræðulaust?

(Forseti (BHar): Forseti minnir á að þessi liður heitir andsvör en ekki samsvör.)