149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla að þakka fyrir þá leiðbeiningu sem við fengum á forsetastóli áðan um hvað sé andsvar og hvað ekki, þó að ég kynni ekki alveg að meta hana. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hún ætli sér að ritstýra ræðuflutningi í kvöld og nótt og/eða andsvörum eða gagnsvörum, hvort hún telji að það sé ein af embættisskyldum hennar að sinna slíku eftirliti, einhverju ræðueftirliti. Mig langar að vita þetta því að það er okkur nokkuð nauðsynlegt að vita sem stöndum hér í þessari umræðu.

Við erum í málefnalegri umræðu. Við erum að spyrja hvert annað spurninga vegna þess að við skiljum ekki alveg háttalag allra sem hér eru innan húss. Við skiljum ekki alveg hvert þeir eru að fara með því frumvarpi sem liggur fyrir. Við skiljum ekki alveg af hverju það þarf að fara í gegnum þingið á slíkum hraða. Þess vegna spyrjum við hvert annað, til að auka okkur skilning

Mig langar að vita hvort forseti hyggst halda þeirri háttsemi áfram að ritstýra eða ritskoða þær ræður sem hér fara fram.