149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég tel engan vafa leika á því að viðræðuslitin við Evrópusambandið hafi skipt sköpum við að styrkja stöðu okkar út á við og líka gagnvart því fólki hér heima sem hugsaði kannski fyrst og fremst um þetta eina markmið, stefnumálið eina að komast inn í ESB, og sýndi undanlátssemi af þeim sökum.

Nú erum við með ríkisstjórn sem hefur ekki haft það sérstaklega á stefnuskránni að ganga í Evrópusambandið. Hvers vegna þá þessi undanlátssemi nú, því hvað er um að ræða? Það er í rauninni um það að ræða að menn færi sig nær grísku leiðinni. Hvað gerðu Grikkir? Hvað voru Grikkir neyddir til að gera undir handleiðslu Evrópusambandsins? Jú, byrja á því að taka lán og gera upp við kröfuhafa í stórum evrópskum bönkum og í vogunarsjóðum. Hvernig stendur þá á því að þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) skuli fara þessa leið? Það er ekki gott að átta sig á því en e.t.v. á hv. þingmaður einhver svör við því.