149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að svara þessari fyrirspurn með því að vitna í blaðamann, Hörð Ægisson, sem vitnað hefur verið talsvert í í dag, í lokasetninguna úr grein sem hann skrifaði undir fyrirsögninni Lokahnykkurinn, og birti þegar til stóð að fara í þessi uppboð og klára þessi verkefni. Hann segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld hljóta að horfa til þess, rétt eins og gert var gagnvart kröfuhöfum gömlu bankanna, að eigendur aflandskróna njóti ekki bættrar erlendrar stöðu þjóðarbúsins með neinum hætti við útgöngu úr höftum. Þess í stað mun sú góða staða sem hefur orðið til vegna viðvarandi mikils viðskiptaafgangs undanfarin ár verða nýtt til að koma til móts við mörg hundruð milljarða króna uppsafnaða erlenda fjárfestingarþörf íslenskra lífeyrissjóða og fyrirtækja. Til að tryggja slíka niðurstöðu í þessu næsta stóra skrefi stjórnvalda við losun hafta þá er nauðsynlegt að reiða sig á trausta pólitíska forystu fremur en brigðula dómgreind embættismanna.“