149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Áður en ég hef andsvar vil ég vekja athygli forseta á því að það virðist hafa misfarist að skrá mig á mælendaskrá eins og ég bað um hér við lok síðustu ræðu minnar.

Það vakti mikla athygli mína þegar hv. þingmaður ræddi um tilraunir erlendra vogunarsjóða eða fulltrúa þeirra til að hafa áhrif á kosningar á Íslandi. Hv. þingmaður rifjaði eitt og annað upp fyrir mér í þeim efnum sem er auðvitað mjög sláandi þegar maður fer í þessa upprifjun og setur allt í það samhengi sem við höfum núna eftir þann tíma sem hefur liðið. Ég veit að hv. þingmaður er mjög vel að sér í alþjóðastjórnmálum og þekkir vel til, til að mynda í Bandaríkjunum. Þar hefur nú verið mikið havarí og miklar rannsóknir vegna kenninga um að einhverjir rússneskir menn á Facebook hafi reynt með skeytasendingum og statusum að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna í Bandaríkjunum. Sitt sýnist auðvitað hverjum um það. Menn eru þó sammála um að það sé mjög alvarlegt ef reynt er að hafa áhrif á úrslit kosninga af fulltrúum jafnvel annarra ríkja. Hvað má þá segja um það þegar menn gerast svo ósvífnir að gera þetta fyrir opnum tjöldum? Hefði ekki verið eðlilegt að mati hv. þingmanns að rannsaka þetta og jafnvel að sú rannsókn hefði náð víðar en til þessara auglýsinga, til þess sem var uppi á yfirborðinu? Ef menn eru farnir að beita netinu víða í svona undirróðri til að reyna að hafa áhrif á kosningar, hefði þá ekki líka verið fullt tilefni til þess, og er kannski enn, að reyna (Forseti hringir.) að rannsaka þessa tilburði til þess að hafa áhrif á kosningar á Íslandi, ekki hvað síst í ljósi þess sem gerst hefur eða komið í ljós síðar?