149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Höfum hugfast að hér er um að ræða aðila sem eru að verja eða að reyna að hámarka gríðarlega hagsmuni og hafa reynst tilbúnir til að beita til þess ýmsum aðferðum, m.a. opinberum áróðri í kosningum. Þá er kannski ekki langsótt að þeir hafi á sama tíma beitt annars konar undirróðri eða áróðri, t.d. á netinu. Höfum í huga að þetta gerðist eftir að stóru mál slitabúanna voru leyst svoleiðis að þetta snerist um akkúrat það sem við erum að ræða núna, aflandskrónurnar. Höfum líka í huga að það sem þessir aðilar voru að fara fram á, ný stjórnvöld með breytta nálgun, breytta stefnu gagnvart þessum aðilum, rættist. Þeir fengu ný stjórnvöld. Þeir fengu nýja stefnu. Þeir náðu í rauninni því sem þeir voru að reyna að ná fram með áróðri sínum.