149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það voru að koma ánægjulegar fréttir á innri vef áðan, það verður hakkabuff og spælegg í hádeginu á morgun.

Hv. þingmaður hefur fjallað mikið um kjör eldri borgara og hvernig hægt er að bæta þau og hefur lagt áherslu á að við setjum fjármuni í að bæta hag þeirra, að eldri borgarar og opinberir starfsmenn geti unnið lengur o.s.frv.

Þingmaðurinn hefur líka talað töluvert fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis. Fram kom áðan að menn voru að áætla eða velta fyrir sér hvað hægt væri að byggja margar, t.d. óhagnaðardrifnar leiguíbúðir fyrir þá fjármuni sem er verið að gefa hér eftir. Ég velti fyrir mér hvort að það hljómi ekki undarlega í eyrum þingmannsins og honum finnist það undarlegt að hvergi komi fram, hvorki í frumvarpinu né nefndarálitinu, ef ég hef lesið þetta allt saman rétt, neinar upplýsingar um hvað væri besta mögulega útkoma og svo versta mögulega útkoma út úr þessu öllu saman. Það er ekki einu sinni reynt að varpa ljósi á það og viðurkennt að menn séu að gefa þarna eftir. Þá er hvorki í frumvarpinu né nefndarálitinu fjallað um þá áhættu sem hér hefur verið nefnd líka.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um það eða hvort hann sé annarrar skoðunar, að mjög mikilvægt sé að þessi umræða fái að þroskast áfram og við fáum stjórnarmeðlimi eða þá sem bera uppi frumvarpið til að svara þessum spurningum þannig að hægt sé í rauninni að skipta aðeins um gír í umræðunni og fá svörin og halda þá áfram að spyrja út frá þeim.