149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir prýðisræðu. Það er svo komið að orðnar eru rétt um 12 klukkustundir síðan umræðan hófst og enn sem komið er hafa ræður stjórnarþingmanna tekið samanlagt sex mínútur af þeim 12 klukkustundum. Mér leikur hugur á að vita, áður en ég fer út í efnisatriði í ræðu hv. þingmanns, hvort hann man, eftir sinn feril hér á þingi síðan 2009, í námunda við tíu ár, eftir viðlíka máli þar sem stjórnarflokkarnir létu svona snautlega aðkomu duga að umræðum um jafn umfangsmikið og mikilvægt mál og hér er á ferðinni. Það væri áhugavert að heyra sjónarmið þingmannsins hvað það varðar.

Hitt er síðan það sem þingmaðurinn kom inn á í ræðu sinni, þ.e. þann aðstöðumun sem hefur verið fyrir fjárfesta á Íslandi á grundvelli þeirra lausna sem formúleraðar voru á tímabilinu 2009–2013 og skekkti auðvitað stöðu margra á þeim tíma. Sú upphafsmeðgjöf sem menn fengu með þeim reglum sem m.a. sneru að afslætti á krónukaupum skekktu stöðuna þá, en þær skekkja stöðuna auðvitað enn þá. Sér þingmaðurinn fyrir sér að (Forseti hringir.) sú staða kæmi upp að réttlætanlegt væri að fara í viðlíka aðgerðir aftur?