149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég á erfitt með að svara þeirri spurningu hvort menn viti eða geri sér grein fyrir því fyrir hverja þeir eru að berjast eða hverjir eiga þessi fyrirtæki eða sjóði sem þarna eru. Við vitum samt alveg, eins og hv. þingmaður lýsti ágætlega, að einhverjir andlitslausir fjárfestar eða milljarðamæringar úti í heimi eiga þetta.

Málið snýst fyrst og fremst um það að svo virðist vera að verið sé að fórna ákveðnum hagsmunum til að ljúka þessum kafla eða málinu með þessum hætti. Því miður er það ekki nýtt í ferlinu að verið sé að gera það. Ég vona svo sannarlega að þingmenn nýti þann tíma sem þeir hafa fengið og kynni sér málin og fylgist með umræðunni til að skoða ofan í kjölinn áður en kemur að afgreiðslu málsins, hvort þetta sé mál sem þeir styðji að fari í gegn með þessum hætti.

Ég held hins vegar að mikilvægt sé að halda sig við að svör um efnisinnihald frumvarpsins þurfi að koma fram. Þau gera það mögulega í nefndarvinnunni milli umræðna. Rökstuðning vantar fyrir málinu hvers vegna það er réttlætanlegt að klára málið og selja eignirnar með þessum hætti. Sá rökstuðningur, það getur vel verið að hann sé til einhvers staðar en hann er ekki hér og hefur ekki komið fram í nótt, og kom ekki í gærkvöldi, þó að eftir því hafi verið kallað.

Það hvort menn viti fyrir hverja þeir eru að vinna í þessu tilviki, ég held ekki. Ég held að vandinn sé sá að menn hafi almennt ekki alveg kynnt sér málið. Ég hugsa að ef menn gerðu það þá kynni að vera annar tónn.