149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna, eins og kom fram í seinna andsvari mínu áðan, að mér var nokkuð brugðið að heyra athugasemdir forseta. Þær voru settar fram þannig í tíma að ég gat ekki annað en tekið þær til mín. Ég áskil mér fullan rétt til að gagnrýna það með hvaða hætti og hvaða sjónarmið liggja að baki hjá þeim aðilum sem eru annaðhvort á nefndaráliti eða flutningsmenn þessa máls, á meðan menn láta ekki svo lítið að koma hér í eina einustu ræðu og útskýra í engu þau atriði sem við reynum að fá botn í, því að ekkert af þeim atriðum sem við höfum lagt mesta áherslu á að fá hér skýrt er skýrt í þeim gögnum sem fyrir liggja, sem er frumvarpið annars vegar og nefndarálitið hins vegar. Mér þykir bara alveg sjálfsagt að við þingmenn gerum kröfu um að fá einhvern botn í þessi mál. Hluti af því samtali sem við eigum (Forseti hringir.) hér, því miður, fyrst og fremst við okkur sjálf, þingmenn Miðflokksins, er að reyna að átta okkur á hvað öðrum þingmönnum gengur til.