149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég hélt rétt í svip hér áðan að við værum að fá þátttakanda í umræðuna og hefði reyndar líka gert mér að góðu að viðkomandi yrði áhorfandi að umræðunni en hann sá sitt óvænna og hvarf á braut þegar.

Sá sem hér stendur hefur eytt líklega helmingi af sinni starfsævi í fjárgæslu fyrir ríkissjóð með ýmsum hætti, sem innheimtumaður ríkissjóðs og fjárgæslumaður ríkissjóðs, þar á undan sinnt störfum þar sem viðkomandi var trúað fyrir fjármunum annarra. Þess vegna tek ég mjög alvarlega þá skyldu þingsins að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, sérstaklega þegar fjármunir ríkissjóðs liggja undir, hvað þá þegar undir liggja fjármunir sem eru rétt tæplega einn tíundi af fjárlögum eins árs. Þess vegna myndi ég ef ég væri forseti Alþingis, sem ég er ekki, hafa nokkrar áhyggjur af því að mál sem varðar svo mikla fjármuni ætti að renna í gegnum Alþingi án umræðu á þrem tímum og korteri.

Þess vegna hef ég mjög glaður tekið þátt í þessari umræðu sem nú hefur staðið hér í þingsal drykklanga stund ef það gæti orðið til þess að annaðhvort tæki þetta mál sem við höfum verið að ræða aðra stefnu eða að við fengjum einhvers konar hughreystingu, ef við getum orðað það þannig, frá þeim sem treysta sér til þess að skrifa undir nefndarálit sem varðar rétt tæplega einn tíunda part af fjárlögum eins árs og rúlla því í gegnum þingið á þremur tímum og korteri. Þessar skýringar höfum við ekki fengið, þessa hughreystingu höfum við ekki fengið, og málið er okkur þess vegna jafn framandi og það er í mínum huga jafn alvarlegt og það var þegar við hófum þessa umræðu fyrir nokkurri stund síðan.

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar sem nú situr heitir stjórnarsáttmáli um eflingu Alþingis. Herra forseti, er það til að efla Alþingi, er það til að efla eftirlitshlutverk þess, til að efla virðingu þess, er það til að efla tiltrú til þess og traust á því að mál af þessari stærðargráðu eigi að fara órætt og óskýrt í gegnum þingið á þrem tímum og korteri?

Ég held ekki, herra forseti. Það er þess vegna og eingöngu þess vegna sem við höfum verið hér og rætt þetta mál þennan tíma, ekki til að koma höggi á einhverja aðra, ekki til að gera einhverjar persónur tortryggilegar, þótt forseti virðist hafa haldið það á tímabili, heldur til að gæta hagsmuna ríkissjóðs sem við eigum öll, gæta hagsmuna þjóðarinnar sem kaus okkur hingað inn til þess að við sinntum hlutverki okkar, til að hafa eftirlit t.d. með framkvæmdarvaldinu.

Ég segi aftur: Þegar mál af þessari stærðargráðu sem varðar fjármuni sem eru u.þ.b. tíundi hluti af fjárlögum Íslands árið 2019 á að fara órætt og óskýrt í gegnum Alþingi á þrem tímum og korteri hljótum við að standa upp og mótmæla því og malda í móinn.

Það er miður að það sé gert á einhvern hátt tortryggilegt af forseta að þessi hópur skuli vilja nýta sér rétt sinn og skyldu sína til að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og (Forseti hringir.) til að greiða fyrir því að mál gangi í gegn sæmilega unnin og með sæmilegri yfirferð.