149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[05:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður hefur lagt mikla áherslu á hversu miklir hagsmunir séu undir í þessu máli. Ég tek sannarlega undir það. En til að setja það í betra samhengi fannst mér að það gæti verið við hæfi að fara yfir með hv. þingmanni frétt sem birtist í dagblaðinu Vísi í júní 2016 rétt áður en fyrirhugað gjaldeyrisútboð Seðlabankans átti að hefjast. Þar er fjallað um skýrslu þeirra Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar um kostnaðinn við bankahrunið. Þar kemur fram að eftir það sem þá var búið af aðgerðum hafði ríkið hagnast um 286 milljarða kr. á hruninu nettó. En þá væru eftir aðgerðir sem vörðuðu aflandskrónurnar. Í fréttinni um útboð á aflandskrónum, í júní 2016, segir að þar standi til að leysa úr þessum 319 milljarða kr. stabba, sem þá var, aflandskrónueigna, á genginu 190–220 kr. fyrir hverja evru og taki allir eigendur aflandskróna þátt í útboðinu gæti ábati ríkissjóðs orðið um 86 milljarðar. Þarna erum við þá komin með tölu á heildina því að við höfum fyrst og fremst verið að ræða þennan síðasta áfanga hér núna. En ef menn hefðu fylgt planinu frá upphafi og fengið menn til að trúa að þeim bæri að (Forseti hringir.) taka þátt, þá væru þetta 86 milljarðar kr. í gjaldeyrissparnaði í tekjur fyrir ríkissjóð.