149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[05:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Hann fjallaði í ræðunni um sín fyrri störf sem innheimtumaður ríkissjóðs annars vegar og fjárgæslumaður hins vegar og síðan störf þar sem honum, eins og hann orðaði það, hafði verið treyst fyrir fjármunum annarra í rekstri.

Það eru auðvitað margir sem tjá sig fjálglega úr þessari pontu á þeim nótum að þeir vilji ganga allra manna harðast og best fram í hagsmunagæslu fyrir umbjóðendur sína og tryggja að hver einasta skattkróna skili sér og að skattheimtuboginn sé spenntur til hins ýtrasta. En í þessu tiltekna máli langar mig að heyra frá hv. þingmanni hvernig hann upplifir það, í ljósi hans fyrri starfa, að menn líti fram hjá þessari umtalsverðu tekjuöflun í ríkissjóð sem maður skyldi ætla að ætti að eiga sér stað og gæti orðið raunin á grundvelli þessarar þvingunaraðgerðar sem var sett af stað 2015, en menn virðast nú vera að sleppa taki á. Hvort sem menn tala um 13,6 milljarða eða 23 eða hver sem talan er eru þetta alvöruupphæðir. Mig langar að vita hvernig fyrrverandi innheimtumanni ríkissjóðs líði með þessa hanteringu því þetta eru auðvitað líka peningar sem verða eftir inni í kerfinu og búa til verkefni eða atvinnu eða styðja við velferðarkerfið (Forseti hringir.) í stað þess að fara út úr íslenska efnahagskerfinu á einhverjum tímapunkti, hvenær sem það verður.